Erlent

Tugþúsundir andæfa yfirgangi forsetans

gudsteinn@frettabladid.is skrifar
Átök í Kaíró Mótmælendur bera félaga sinn, sem særðist í átökum, til að koma honum undir læknishendur.	FRÉTTABLAÐIÐ/AP
Átök í Kaíró Mótmælendur bera félaga sinn, sem særðist í átökum, til að koma honum undir læknishendur. FRÉTTABLAÐIÐ/AP
Tugir manna slösuðust í átökum milli stuðningsmanna og andstæðinga Mohammeds Morsi Egyptalandsforseta, sem brutust út í Kaíró í gær út af stjórnarskrárbreytingum forsetans.

Morsi kynnti stjórnarskrárbreytingarnar á fimmtudaginn, en með þeim tekur hann sér einhliða nánast alræðisvald í landinu.

Tugir þúsunda manna komu saman í gær á Tahrir-torgi í Kaíró til að mótmæla þessu og krefjast þess að lýðræði yrði í hávegum haft.

Kveikt var í skrifstofum Bræðralags múslíma í nokkrum helstu borgum landsins, en stjórnmálaflokkur Morsis er afsprengi þeirra samtaka.

Stuðningsmenn Morsis segja stjórnarskrárbreytingarnar rökrétt skref til þess að tryggja að sá árangur, sem náðist þegar Hosni Mubarak var steypt af stóli, verði ekki að engu. Þetta sé eina leiðin til að koma í veg fyrir að ekkert verði úr þeim breytingum á stjórnskipan landsins, sem unnið hefur verið að síðustu mánuði.

Fyrr á þessu ári leystu dómstólar upp bæði nýkjörið þjóðþing og stjórnlagaþing landsins. Í byrjun næsta mánaðar hugðist hæstiréttur Egyptalands síðan kveða upp úrskurð um það hvort efri deild þingsins hefði verið rétt kjörin.

Sjálfur hélt Morsi ræðu í gær fyrir þúsundir stuðningsmanna sinna þar sem hann sagði þessar ráðstafanir nauðsynlegar til að stöðva þau „meindýr" sem hann segir reyna að koma í veg fyrir framfarir í landinu.

Morsi segir að breytingarnar eigi einungis að vera tímabundnar. Þær falli sjálfkrafa úr gildi þegar ný stjórnarskrá tekur gildi í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×