Skoðun

Breytum þessu saman

Margir einstaklingar hafa komið að máli við mig undanfarið og sagt mér að þeir séu búnir að glata trúnni á stjórnmálin. Þeim þykir miður hversu lítið traust ríkir í samfélaginu og telja ástæðuna meðal annars þá að kjörnir fulltrúar forgangsraði ekki nægilega í þágu fólksins í landinu.

Það er talsvert til í því. Stjórnmálamenn verða að leggja sig enn betur fram við að hlusta á fólkið og heyra raddir þess. Þá færi mestur tími okkar allra í að vinna að lausnum vegna þeirra verkefna sem fjölskyldurnar í landinu standa frammi fyrir. Orkan færi í að skapa fólkinu og fyrirtækjunum tækifæri til að nýta það sem við eigum til að efla atvinnu, hagsæld og von. Aðgerðir til að draga úr skuldavanda og auka ráðstöfunartekjur heimilanna væru í forgrunni og umtalsverður tími yrði nýttur til að minnka yfirbyggingu og kostnað kerfisins, svo tryggja mætti lága skatta og sem besta nýtingu fjármagns. Starfshópum opinberra starfsmanna og stjórnmálamanna um allt og ekki neitt yrði fækkað en öll áhersla lögð á að færa vald og val til almennings sjálfs.

Að ástunda slík stjórnmál er eina leiðin til að endurvinna það traust sem glatast hefur. Núverandi valdhöfum hefur ekki tekist það og því bíður það mikilvæga verk þeirra sem raunverulega eru reiðubúnir til að hlusta og heyra – en umfram allt vinna í þágu fólksins í landinu. Við eigum fjölmörg ónýtt tækifæri til að gera landið okkar enn betra. Hér geta allir lagt sitt af mörkum og hér getum við í sameiningu gert þær breytingar sem nauðsynlegar eru.

Ég hvet allt sjálfstæðisfólk í Reykjavík til að taka þátt í að velja öflugan framboðslista fyrir komandi þingkosningar. Þannig aukum við líkurnar á góðum árangri Sjálfstæðisflokksins í vor og gefum íslenskri þjóð von um breytingar, fleiri tækifæri og nýja tíma.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×