Skoðun

Gelding grísa án deyfingar loks færð í lög

Guðný Nielsen skrifar
Á undanförnum árum hafa íslensk svínabú legið undir ámæli fyrir það verklag að grísir eru geltir án deyfingar. Neytendur virtust áður almennt ómeðvitaðir um að þetta færi fram hérlendis, enda alla jafna talið að gætt sé að velferð dýra í íslenskum landbúnaði.

Frumvarp til laga um velferð dýra var lagt fram á Alþingi 25. október síðastliðinn og gekk það samdægurs til atvinnuveganefndar. Drög að frumvarpinu eru heldur eldri og fólu þau í sér skýrt bann við geldingu dýra án deyfingar. Nú hefur þrýstingur hagsmunahópa náð að knýja fram breytingar og gerir núverandi frumvarp ráð fyrir heimild til geldingar grísa, yngri en vikugamalla, án deyfingar. Frumvarpið gerir ráð fyrir verkjastillandi lyfjagjöf, en gelding er sársaukafull aðgerð og lyfjagjöf ein og sér kemur aldrei í stað fyrir deyfingu.

Í núgildandi lögum um dýravernd er kveðið á um að dýr skuli ávallt deyfð eða svæfð við sársaukafulla aðgerð. Hins vegar hefur undanþága í reglugerð um aðbúnað og heilbrigði svína hingað til gert svínaræktendum kleift að gelda grísi, yngri en sjö daga gamalla, án deyfingar. Þetta er gert til hagræðingar fyrir eigendur svínabúa því það er kostnaðarsamt að kalla til dýralækni til þess að framkvæma deyfingu á hundruðum grísa. Grísirnir þjást við geldingu hvort sem þeir eru þriggja, sjö eða fimmtán daga gamlir.

Verði framangreint frumvarp um velferð dýra að lögum verður heimildin til að framkvæma þessa sársaukafullu aðgerð án allrar deyfingar loks færð í lög. Með því yrði stigið stórt skref aftur á bak í velferðarmálum dýra. Það er með öllu ótækt að þetta skuli heimilað með lögum sem tryggja eiga velferð dýra á Íslandi.

Ég skora á atvinnuveganefnd að sjá til þess að svo verði ekki.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×