Skoðun

Glæsilegt landsmót í Reykjavík

Kjartan Magnússon skrifar
Landsmót hestamanna var haldið í Reykjavík 25. júní – 1. júlí, og var aðstandendum sem og þátttakendum til mikils sóma. Með velheppnuðu móti hefur höfuðborgin sannað gildi sitt sem frábær landsmótsstaður enda voru aðstæður á Fákssvæðinu í Víðidal eins og best verður á kosið.

Landsmót hefur mikla þýðingu fyrir hestaíþróttina og félagsstarf hestamanna. Hestafólk á öllum aldri fær eitthvað við sitt hæfi hvort sem það starfar við fagið eða stundar hestamennsku sér til gamans. Ásamt því að vera skemmtilegur fjölskylduviðburður er mótið líka mikil mannlífsupplifun enda koma þátttakendur hvaðanæva að af landinu.

Vikuveisla í Víðidal

Landsmótið var haldið af Landssambandi hestamanna og Bændasamtökunum í góðu samstarfi við Hestamannafélagið Fák og Reykjavíkurborg. Í október 2009 lýsti borgarráð yfir stuðningi við umsókn Fáks og í ársbyrjun 2010 var ákveðið að landsmótið yrði haldið í Reykjavík. Mótið ber upp á níutíu ára afmælisári Fáks og má með sanni segja að afmælisveislan hafi staðið í viku.

Þar sem Landsmótið er alþjóðlegt stórmót eru miklar kröfur gerðar til aðbúnaðar og umgjarðar. Víðidalur er sannkölluð útivistarperla og gott starf hefur verið unnið við að fegra dalinn og bæta aðstæður þar til hestamennsku og annarrar útiveru.

Tækifæri í ferðaþjónustu

Talið er að nú séu um 220 þúsund íslenskir hestar til í heiminum og þar af eru um 140 þúsund erlendis. Íslenski hesturinn er því vinsæll sendiherra, sem ber hróður landsins víða. Í ljósi þess þarf engan að undra að Landsmót er einn stærsti viðburður ársins í ferðaþjónustu á Íslandi. Þúsundir útlendra gesta komu á landsmótið og luku margir lofsorði á framkvæmd þess. Ástæða er til að skoða möguleika á frekari eflingu ferðaþjónustu í tengslum við hestamennsku og þar gæti Fákssvæðið í Víðidal gegnt mikilvægu hlutverki. T.d. mætti skoða hvort ekki væri hægt að fjölga þar viðburðum og mótum og nota afl ferðaþjónustunnar til að markaðssetja þá erlendis. Í ljósi nýrrar hótelspár fyrir Reykjavík má jafnframt skoða hug aðila í ferðaþjónustu til þess að reisa hótel í nágrenni við Fákssvæðið og aðra frábæra útivistarkosti á þeim slóðum; t.d. sund, stangveiði og skíði.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×