Innlent

Stríð stendur um loftslagsmál

Michael Mann hélt fyrirlestur í síðasta mánuði á vegum Eddu – öndvegisseturs og Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands. Hann segir Bandaríkjamenn langt á eftir Evrópubúum þegar kemur að umhverfisvitund.
Michael Mann hélt fyrirlestur í síðasta mánuði á vegum Eddu – öndvegisseturs og Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands. Hann segir Bandaríkjamenn langt á eftir Evrópubúum þegar kemur að umhverfisvitund. fréttablaðið/gva
Gríðarlegum fjármunum er varið til að berjast gegn vísindum sem sýna fram á hlýnun jarðar af mannavöldum. Bandaríski loftslagsvísindamaðurinn Michael Mann lenti í hringiðu þeirrar baráttu. Til stóð að stefna honum fyrir þingnefnd og hefði hann þá þurft að

Michael Mann, prófessor við Penn State University, er einn af höfundum línuritsins sem kennt hefur verið við hokkíkylfuna. Það varð ein af helstu táknmyndum þess sem nefnt hefur verið loftslagsstríðið, en dæmi um það er svokallað Climategate þegar tölvubréfum vísindamanna var stolið árið 2009 og reynt að sýna fram á fölsun á gögnum um hlýnun jarðar.

Mann segir Climategate dæmi um það hvernig staðreyndum er afneitað þegar kemur að loftslagsmálum. Þó það hafi verið margsannað að engin fölsun átti sér stað haldi sumir því ranglega fram og reyni að festa þá skoðun í sessi á meðal almennings.

„Nú er nokkuð um liðið frá Climategate og 9 rannsóknir hafa farið fram um málið í Bretlandi og Bandaríkjunum. Niðurstaða þeirra allra er að ekkert óviðurkvæmilegt hafi farið fram og vísindamennirnir ekki gert neitt rangt. Það er kaldhæðnislegt að eina misgjörðin í þessu öllu var stuldurinn á tölvubréfunum, en einhverra hluta vegna hafa fórnarlömb þess glæps þurft að gjalda fyrir hann.

Það að andstæðingum aðgerða gegn loftslagsbreytingum hafi tekist að móta umræðuna þannig sýnir hve skilvirkir þeir eru orðnir.

Þó að þetta mál sé um garð gengið vitnar hluti þeirra sem afneita loftslagsbreytingum enn í þessi stolnu tölvubréf, eins og þau hafi svert vísindin. Einn einkennandi þáttur hreyfinga sem afneita vísindalegum staðreyndum, eins og áróður gegn þróunarkenningunni og einnig gegn loftslagsbreytingum eru dæmi um, er að framleiða eigin staðreyndir þar sem hinar raunverulegu staðreyndir, vísindin, ganga gegn markmiðum þeirra.

Þær búa því til sínar eigin staðreyndir og þess vegna var Climategate þeim svo mikilvægt. Ákveðnar ásakanir í því máli hafa verið endurteknar aftur og aftur þrátt fyrir að löngu hafi tekist að sýna fram á að þær eru rangar. Það er hins vegar hægt að blekkja hluta almennings með þessu og telja þeim trú um að loftslagsbreytingar séu blekkingin ein.“

Stefnt fyrir þingnefndMann hefur persónulega reynslu af þessu, en hann og meðhöfundar hans að hokkíkylfunni urðu fyrir stigvaxandi persónulegum árásum frá einstaklingum og hópum sem þekktir voru fyrir andstöðu sína gegn hvers kyns reglum um takmörkun útblásturs gróðurhúsalofttegunda.

„Þetta hófst fyrir rúmlega áratug. Við birtum grafið okkar seint á tíunda áratugnum og það var síðan birt í skýrslu ICCP árið 2001, sem er alþjóðlegur vettvangur um loftslagsbreytingar. Þá varð það að tákni og algengri mynd í loftslagsdeilum.

Við urðum fyrir árásum upphaflega frá einstaklingum og samtökum, sérstaklega tengdum jarðefnaeldsneytisiðnaðinum, en að endingu einnig frá virtum stjórnmálamönnum í bandaríska stjórnkerfinu. Þar má nefna bandaríska öldungadeildarþingmanninn James Inhoff og Joe Barton frá Texas. Inhoff fékk einna hæstu styrkina frá jarðefnaeldsneytisiðnaðinum í öldungadeildinni og Barton í þinginu.

Árið 2005 stefndi Barton mér fyrir þingnefnd og krafðist þess að fá öll persónuleg gögn mín, þar með talin tölvubréf, og það vakti mikil viðbrögð og deilur.

Margir hópar vísindamanna og stofnanir í Bandaríkjunum og einnig stjórnmálamenn stigu strax fram og fordæmdu aðgerðir hans og sögðu minna á McCarthy-isma. Sumir kölluðu hann nútíma-McCarthy. En þetta er dæmi um árásir sem því miður eru orðnar algengar í dag gagnvart mér og öðrum loftslagsvísindamönnum. Ég hef lent í miðju þessarar orrahríðar.

Villst af sporinuMann segir að það hafi aðeins verið fyrir flokksfélaga Bartons, Sherwood Boehlert sem var formaður vísindanefndar bandaríska þingsins, að Barton tókst ekki ætlunarverk sitt. Repúblikanaflokkurinn hafði á þessum tíma tögl og hagldir í stjórnkerfinu, meirihluta í báðum þingdeildum og George W. Bush sat í Hvíta húsinu.

Boehlert stöðvaði málið, en Mann segir að meðal annars það hafi orðið til þess að hann bauð sig ekki fram á ný. Hann segir Repúblikanaflokkinn hafa villst herfilega af leið þegar kemur að umhverfismálum.

„Boehlert var þekktur sem stuðningsmaður vísinda og umhverfissinni í Repúblikanaflokknum, í anda Theodores Roosevelt. Það er kaldhæðnislegt hvernig komið er fyrir þeim flokki því hann á langa hefð í baráttu fyrir umhverfinu. Í dag er hreyfing innan flokksins sem svíkur þá hefð og þú sérð þetta í starfi hans.“

Þar vísar Mann til Teboðshreyfingarinnar, en hann segir að sjónarmið hennar hvað varðar vísindi og umhverfismál hafi tekið flokkinn yfir. Ekkert rými sé lengur fyrir umhverfissinnaða Repúblikana.

Bandaríkin draga lappirnarBarack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur lýst því yfir að umhverfismál verði á meðal þeirra mála sem hann ætlar að berjast fyrir, verði hann endurkjörinn. Mann segir enn óljóst hvað það þýði, en fólk sé þó bjartsýnt á auknar áherslur í umhverfismálum sitji Obama annað kjörtímabil. Hann segir hins vegar vandamál hve Bandaríkin eru aftarlega á merinni þegar kemur að umhverfismálum.

„Bandaríkin eru langt á eftir öðrum löndum í þessum efnum. Ef horft er til Kína, Indlands og stórra vanþróaðra ríkja, þá sjá þau að mikill iðnaður mun skapast í kringum endurnýjanlega orkugjafa. Það er kaldhæðnislegt að Bandaríkin séu að draga saman á því sviði. Í dag snýst deilan í Bandaríkjunum um hvort nota eigi náttúrugas eða kol. Þar erum við stödd.

Evrópubúar og margar aðrar þjóðir hafa þetta viðhorf til loftslagsmála, að ljóst sé hvernig framtíðin verður og jarðefnaeldsneyti muni ekki skipa þar stóran sess. Þess vegna verði að byggja upp endurnýjanlega orkugjafa. Á meðan önnur lönd þokast fram á við í þessum efnum er kaldhæðnislegt hvernig þetta er í Bandaríkjunum.

Ég held að stjórnmálaumræða í Bandaríkjunum hafi verið mörkuð með hugmyndum um efnahagslegt sjálfstæði. Rökin eru þau að við verðum að vera sjálfstæð hvað varðar jarðefnaeldsneyti og iðnaðinum hefur tekist að gera það að spurningu um sjálfstæði Bandaríkjanna. Bandaríkin hafi misst forskot sitt og spurningin sé hvort þau nái því aftur.“

Þarf breytta umræðuHæstiréttur Bandaríkjanna hefur úrskurðað að fyrirtæki hafi sama rétt og einstaklingar til að styðja stjórnmálastarf. Fyrirtæki geta nú veitt ótakmarkað fjármagn í baráttuna og Mann segir að til dæmis Koch-bræður muni eyða meira en einum milljarði dollara í baráttuna fyrir hönd Repúblikanaflokksins.

Koch-bræður eru stærsti styrktaraðili Teboðshreyfingarinnar og einnig baráttunnar fyrir afneitun loftslagsbreytinga af mannavöldum. Mann segist stundum velta því fyrir sér hver markmið þessarar baráttu sé.

„Ég á vini í Repúblikanaflokknum og ég veit að þeim er jafn umhugað um framtíð barna sinna og demókrötum, en um það snýst málið, að skila heilbrigðri plánetu til barna og barnabarna okkar.

Ég á því erfitt með að skilja hvað hvetur fólk eins og Koch-bræður áfram. Vilja þeir skila börnum sínum verri plánetu eða telja þeir sig eiga svo mikla peninga að þeir geti reist nýlendu á Mars fyrir afkomendur sína? Ég skil þetta ekki, en ég held að þeir sjái aðeins stundarhagsmuni sína.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×