Skoðun

Nýtt húsnæðisbótakerfi fyrir meðlagsgreiðendur

Gunnar Kristinn Þórðarson skrifar
Nýlega kynnti samráðshópur um húsnæðisstefnu stjórnvalda tillögur að nýju húnsnæðisbótakerfi, í skýrslu sem var kynnt nú á dögunum. Þær leggja áherslu á aðstoð hins opinbera óháð búsetu og taka aukið tillit til ólíkra þjóðfélagshópa. Margt í tillögunum er gott og eru þær vísbending um aukið jafnræði í aðstoð hins opinbera til handa heimilunum í landinu.

Þótt frumvarpið hafi ekki enn litið dagsins ljós, þegar þetta er skrifað, má reikna með því að umræddar breytingar verði til að jafna lífskjör í landinu; einkum hjá þeim sem leigja og hafa ekki notið aðstoðar í bótakerfinu.

Þrátt fyrir öll hin góðu teikn er einnig ástæða til að hafa áhyggjur af stefnu stjórnvalda í húsnæðismálum þegar kemur að meðlagsgreiðendum; einkum þeim sem einstæðir eru. Samtök meðlagsgreiðenda hnjóta um ýmsa þætti tillagnanna. Þær byggjast að hluta til á svokölluðum vegvísi Evrópuráðsins um húsnæðisöryggi, en í honum segir m.a. að húsnæðisstefnu stjórnvalda beri að tryggja félagslega samheldni og að markmið slíkrar húsnæðisstefnu séu „fjárhagslegt stýritæki fyrir viðkvæma hópa vegna öflunar eigin húsnæðis".

Í skýrslu samráðshópsins kemur auk þess fram sú áhersla OECD að húsnæðisstefna aðildarríkja skuli vera skilvirk og sanngjörn. Samráðshópurinn tekur undir með Evrópuráðinu og OECD og telur það hlutverk hins opinbera að hlaupa undir bagga með þjóðfélagshópum sem sárt eiga um að binda þar sem: „Fjölskyldur og einstaklingar sem eiga rétt á opinberri aðstoð, til dæmis, lágtekjufólk, fjölskyldur með þunga framfærslubyrði, fólk í erfiðum félagslegum aðstæðum, fatlaðir og aldraðir, eiga að vera á sama húsnæðismarkaði og aðrir." Þá segir samráðshópurinn að, „greinargóðar upplýsingar um húsnæðismarkað séu nauðsynlegar forsendur stefnumótunar og þurfi að vera aðgengilegar öllum á húsnæðismarkaði".

Áhyggjuefni Samtaka meðlagsgreiðenda lýtur að því, að engar ásættanlegar upplýsingar eða rannsóknir eru til um fjárhagslega stöðu eða félagslega hagi meðlagsgreiðenda. Sú úttekt sem kemst næst því að vera viðunandi er skýrsla nefndar um stöðu barna í mismunandi fjölskyldugerðum, sem var gerð fyrir félags- og tryggingamálaráðuneytið árið 2009.

Þótt þar komi berlega í ljós að meðlagsgreiðendur búi við lægstu framfærsluna, verður hún óviðunandi við það eitt, að forsenda útreikninga í skýrslunni miða við að meðlagsgreiðendur borgi aðeins eitt meðlag, á meðan reyndin er að helmingur þeirra borgar fleiri en eitt meðlag. Þá eru ótaldir þeir sem borga aukið meðlag. Í ofanálag má nefna að skýrslan tekur ekki tillit til skulda meðlagsgreiðenda við lánastofnanir, jafnvel þótt gögn sem Samtök meðlagsgreiðenda hafa undir höndum bendi til þess að 75% einstæðra meðlagsgreiðenda séu á vanskilaskrá.

Upplýsingar um hagi meðlagsgreiðenda eru því vart til staðar, og kemur það því ekki á óvart að samráðshópurinn skuli nefna sérstaklega flesta þjóðfélagshópa í úttekt sinni, en láta það vera að nefna meðlagsgreiðendur á nafn jafnvel þótt meðlagsgreiðendur séu allt að fjórtán þúsund talsins. Það er þó ekki öruggt þar sem hið opinbera veit ekki nákvæmlega hvað þeir eru margir. Þar sem tölfræðina vantar er ekki hægt að fullyrða fullum fetum að einstæðir meðlagsgreiðendur búi við verstu kjörin á Íslandi, jafnvel þótt heilbrigð skynsemi og einfaldir útreikningar bendi svo sannarlega til þess.

Þótt opinberar stofnanir haldi öðru fram þá er það samt þannig í raun að einstæðir meðlagsgreiðendur búa við lang verstu kjörin í samfélaginu. Staða þeirra er óhugnanleg og er það því verulegt áhyggjuefni að ekki skuli vera getið um þann hóp í skýrslu samráðshópsins. Ef til verða „sérstakar húsnæðisbætur" til handa einstæðum foreldrum með nýju húsnæðisbótakerfi, er það mikið jafnræðis- og réttlætismál að einstæðir meðlagsgreiðendur fái aðgang að þeim sem foreldrar en ekki sem barnlausir einstæðingar eins og staðan er nú.

Þó er ástæða til að þakka stjórnvöldum sérstaklega fyrir jákvætt og uppbyggilegt viðmót gagnvart Samtökum meðlagsgreiðenda og framlagi samtakanna til umræðunnar. Samtökin bíða átekta eftir frumvarpi til laga um nýjar húsnæðisbætur og hlakka til að eiga jákvætt og uppbyggilegt samstarf við stjórnvöld þegar umsagnaferli frumvarpsins hefst á Alþingi.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×