Innlent

Myndir af forseta teknar niður

Ólafur Ragnar Grímsson Ekki þykir við hæfi að þar sem greidd eru utankjörfundaratkvæði hangi uppi mynd af einum frambjóðanda í forsetakosningunum. Fréttablaðið/Anton
Ólafur Ragnar Grímsson Ekki þykir við hæfi að þar sem greidd eru utankjörfundaratkvæði hangi uppi mynd af einum frambjóðanda í forsetakosningunum. Fréttablaðið/Anton
Utanríkisráðuneytið hefur sent sendiráðum Íslands erlendis ábendingu um að þess sé gætt að myndir af Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, hangi ekki uppi á kjörstað í sendiráðum og á ræðismannsskrifstofum.

„Við fengum ábendingu um að það væri ekki við hæfi að mynd af einum frambjóðandanum héngi uppi á kjörstað. Við gáfum engin fyrirmæli um þetta, heldur einungis ábendingu um að þess yrði gætt að myndir af forsetanum væru ekki á kjörstað. Okkur finnst þetta sjálfsagður hlutur," segir Pétur Ásgeirsson, sviðsstjóri hjá utanríkisráðuneytinu.

Spurður hvort myndir af forseta hafi áður verið teknar niður á kjörstað segir hann að hann eigi ekki von á öðru en að það hafi verið gert þótt það hafi ekki verið athugað sérstaklega.

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla í sendiráðum og á ræðismannsskrifstofum hófst 7. maí síðastliðinn og þurfa kjósendur sjálfir að póstleggja atkvæði sín eða koma þeim á annan hátt til viðkomandi kjörstjórnar fyrir kjördag.

„Atkvæðagreiðslunni lýkur tæknilega daginn sem kjörið er á Íslandi en það þjónar ekki tilgangi að kjósa þá nema menn geti komið kjörseðlum heim í tæka tíð," segir Pétur. - ibs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×