Erlent

Lækkun á mörkuðum í lok dags

Mariano Rajoy
Mariano Rajoy fréttablaðið/AP
Neyðarlán Spánverja frá Evrópusambandinu hefur veitt bæði Spáni og evrusvæðinu öllu aukinn tíma til að takast á við vandamálin sem steðja að. Þetta sögðu spænskir fjölmiðlar í gær, en jafnframt sögðu þeir flestir að neyðarlánið væri aðeins fyrsta skrefið í endurbyggingu hagkerfisins í landinu.

Spánverjar óskuðu eftir fjárhagsaðstoð um helgina, til þess að styrkja eiginfjárstöðu spænskra banka sem eru margir hverjir mjög illa staddir. Lánið frá ESB getur numið allt að hundrað milljörðum evra, en nákvæm upphæð verður ákveðin á næstu dögum.

Aukinnar bjartsýni gætti á mörkuðum í Evrópu og Asíu í gærmorgun, en það entist ekki út daginn og höfðu flestar vísitölur lækkað við lokun markaða. Sérfræðingar vöruðu við því í gær að neyðarlán til Spánverja þýddi ekki lausn á skuldavanda Evrópu. Þá hafa verið viðraðar áhyggjur af því að spænskum stjórnvöldum muni reynast þessi aukna skuldabyrði erfið og þau muni eiga erfitt með að borga lánið til baka.

Sjónir manna beinast nú á nýjan leik að Grikklandi, þar sem kosið verður að nýju í lok næstu viku. Mögulegt er að Grikkir kjósi yfir sig stjórn sem vilji yfirgefa myntsamstarfið, og þá er mögulegt að fleiri lönd fylgi á eftir. Þá óttast menn einnig ástandið á Ítalíu, sem gæti orðið næsta landið til þess að biðja um fjárhagsaðstoð sambandsins. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×