Ferðaþjónusta: Atvinnugrein eða móttökunefnd?
Það er skoðun okkar sem þetta ritum og reynsla að ferðamenn séu tilbúnir til þess að greiða eðlilegt gjald fyrir veitta góða þjónustu, rétt eins og við gerum sjálf á erlendri grundu og þykir sjálfsagt.
Mikill meirihluti erlendra ferðamanna sem hingað koma tilgreinir íslenska náttúru sem helsta hvata til ferðarinnar. Mikið hefur verið um það rætt undanfarin ár, hvað teljist í hugum erlendra gesta vera íslensk náttúra og hvað veki forvitni þeirra um land og þjóð. Það er okkar reynsla að vistvæn orkuvinnsla Íslendinga sé þáttur í þessari náttúruupplifun ferðamanna og að virkjanir, bæði jarðhitavirkjanir og vatnsaflsvirkjanir séu aðdráttarafl; ferðamannastaðir.
Orkusýn ehf., sem er í eigu okkar, hefur nú í eitt ár rekið jarðhitasýningu í Hellisheiðarvirkjun og tekið gjald af gestum sem þangað koma.
Í þrjú ár þar áður var gestamóttaka Hellisheiðarvirkjunnar rekin sem kynningar- og fræðslumiðstöð Orkuveitu Reykjavíkur og öllum opin sem þangað vildu koma og ekki var tekið gjald af gestum. Við samdráttaraðgerðir lokaði Orkuveitan gestamóttökunni og var svo um nokkurra mánaða skeið.
Við undirrituð, sem höfðum komið að uppbyggingu kynningarrýmisins, sáum tækifæri í því að hefja rekstur á jarðhitasýningu og tókum rýmið á leigu. Vitandi um áhuga ferðamanna og ferðaþjónustufyrirtækja á að koma í heimsókn í jarðvarmavirkjun, fá þar fræðslu og leiðsögn og kynnast því hvernig Íslendingar hafa nýtt sér jarðvarma til húshitunar og raforkuframleiðslu á einstakan hátt, fannst okkur ótækt að staður sem hafði nánast fest sig í sessi sem fjölsóttur ferðamannastaður yrði aflagður.
Uppbygging á aðstöðunni var unnin í samráði við nágrannasveitarfélög og hagsmunaaðila sem flestir koma úr ferðaþjónustu. Góð aðkoma, gott aðgengi, góðar upplýsingar um starfsemina voru lykilatriði við hönnun húsnæðis og sýningarinnar í Hellisheiðarvirkjun.
Okkur var ljóst frá upphafi að aðgangseyrir að Jarðhitasýningunni var forsenda þess að hægt væri að hafa lifibrauð af starfseminni og skapa atvinnu með ráðningu starfsmanna.
Á þessu eina ári höfum við lært að ferðamönnum þykir það sjálfsagður hlutur að greiða fyrir veitta þjónustu. Það er okkur því umhugsunarefni hvað er í veginum við að innheimta gjald á þeim ferðamannastöðum sem líða fyrir hirðuleysi vegna peningaskorts. Við viljum hvetja samstarfsaðila okkar í ferðaþjónustu ásamt ríki og sveitarfélögum sem eiga hlut að máli og taka höndum saman um að innleiða sanngjarnt verð fyrir góða þjónustu.
Það er hægt að taka fjölmörg dæmi og margir tala eðlilega um Gullfoss og Geysi og Dimmuborgir og aðra slíka staði. En það er líka gaman að taka fyrirferðarmikið dæmi: Perluna.
Í Perluna koma um sex hundruð þúsund gestir á hverju ári. Við sem þetta ritum höfum komið að margskonar hugmyndavinnu um rekstur Perlunnar og þekkjum því stöðuna út í hörgul. Eðlilegur hluti þessara sex hundruð þúsunda kemur þangað á veitingastaðinn og til þess að skoða Sögusýninguna. Meginaðdráttarafl Perlunnar fyrir langstærstan hluta þessa mikla fjölda er hins vegar allt annað: Ókeypis klósett.
Það er einhver innbyggður ótti við það að innheimta gjald fyrir veitta þjónustu á ferðamannastöðum, sem byggir trúlega á einhvers konar hræðslu við einangrun, að fólk muni ekki vilja koma hingað, ferðamönnum snarfækki og ferðaþjónustan lamist. Þetta er fullkomlega ástæðulaus afstaða. Íslensk ferðaþjónusta hefur öll spilin á sinni hendi. Við eigum einhverja mestu auðlind sem um getur, íslenska náttúru, síðustu auðnina í Evrópu. Það á að kosta að fá að skoða þetta einstaka fyrirbæri, en það er okkar að veita góða þjónustu í staðinn, góðar upplýsingar, fræðslu og hreinlætisaðstöðu. Stór hluti erlendra ferðamanna kann t.d. ekki að ganga örna sinna úti í náttúrunni og hefur aldrei gert. Þeir reka því eðlilega upp stór augu þegar enga slíka þjónustu er að fá og ekki einu sinni hægt að fá hana með því að greiða fyrir hana. Það leiðir af sér fjöldaheimsóknir ferðamanna á snyrtingar á veitingastöðum og gististöðum um allt land, jafnvel í kirkjum og verslunarmiðstöðvum.
Við viljum ekki að Ísland verði Mallorca Norðursins. Það er verkefni ferðaþjónustunnar að laða til landsins hæfilegan fjölda ferðamanna sem geta greitt sanngjarnt gjald fyrir góða þjónustu.
Ferðaþjónustan er atvinnugrein, ekki móttökunefnd.
Nú á tímum eru miklar væntingar til ferðaþjónustunnar, þ.e. að hún verði stöndugur atvinnuvegur, sem skilar arði til þjóðarbúsins. Ferðaþjónustan á að geta staðið undir þeim væntingum, en þá þarf að koma til samstaða í greininni og skilningur á að það er allra hagur að vel gangi, líka hjá samkeppnisaðilanum.
Fréttir um þróun ferðaþjónustunnar þurfa því að vera fréttir af auknum tekjum af ferðamönnum fyrir veitta þjónustu, ekki auknum fjölda ferðamanna. Það er einföld baunatalning.
Skoðun
Sorg barna - fyrstu viðbrögð barna við missi
Matthildur Bjarnadóttir skrifar
Með styrka hönd á stýri í eigin lífi
Árni Sigurðsson skrifar
Hjólað inní framtíðinna
Búi Bjarmar Aðalsteinsson skrifar
Framsækin ríkisstjórn í umhverfis- og auðlindamálum: Nýi stjórnarsáttmálinn.
Stefán Jón Hafstein skrifar
Hugvíkkandi meðferðir eru fortíð okkar, nútíð og framtíð
Sara María Júlíudóttir skrifar
Komdu út að „Vetrar-leika“ í Austurheiðum Reykjavíkur
Sara Björg Sigurðardóttir skrifar
Upprætum óttann við óttann
Sóley Dröfn Davíðsdóttir skrifar
Hér er kona, um konu…
Vilborg Gunnarsdóttir skrifar
Vegna greinar Snorra Mássonar
Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Ertu á krossgötum?
Þuríður Santos Stefánsdóttir skrifar
Vísvita villandi fréttaflutningur Morgunblaðsins?
Sigurjón Þórðarson skrifar
Hafa fyrrum æskunnar eftirlætisbörn og nú ellinnar olnbogabörn fengið nóg?
Gunnar Ármannsson skrifar
Máttur kaffibollans
Ásta Kristín Sigurjónsdóttir skrifar
Hefjum aðildarviðræður við Bandaríkin
Einar Jóhannes Guðnason skrifar
Eru tengsl milli Úkraínustríðsins og breyttrar stöðu Grænlands?
Hilmar Þór Hilmarsson skrifar
Árið 1975 er að banka
Rakel Linda Kristjánsdóttir skrifar
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar?
Elfa Ýr Gylfadóttir skrifar
Val Vigdísar
Skúli Ólafsson skrifar
Friður á jörðu
Þröstur Friðfinnsson skrifar
Af hverju eru kennarar að fara í verkfall?
Anton Már Gylfason skrifar
Opið bréf til Íslandspósts ohf.
Gróa Jóhannsdóttir skrifar
Gaza getur ekki beðið lengur
Hjálmtýr Heiðdal,Magnús Magnússon skrifar
Ísland yrði betra með aðild að Evrópusambandinu
Jón Frímann Jónsson skrifar
SVEIT – Kastið inn handklæðinu
Aðalsteinn Árni Baldursson skrifar
Skjáfíkn - vísindi eða trú?
Ásdís Bergþórsdóttir skrifar
Evrópusambandið eða nasismi
Snorri Másson skrifar
Friður eða svikalogn? Hilmari Þór Hilmarssyni, prófessor, svarað
Andri Þorvarðarson skrifar
Hlýnun jarðar mun ekki valda heimsendi
Sæunn Kjartansdóttir skrifar
Listin að styðja en ekki stýra
Árni Sigurðsson skrifar