Fótbolti

Lars Lagerbäck: Við spiluðum ekki illa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lars Lagerbäck.
Lars Lagerbäck. Mynd/Vilhelm
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta endaði landsleikjaárið með því að vinna 2-0 sigur á Andorra í vináttulandsleik í kvöld. Liðið vann fjóra af tíu leikjum sínum á árinu.

„Það var mikilvægt að við unnum leikinn og þetta var ágætis leikur. Við spiluðum ekki illa og stjórnuðum leiknum vel. Þeir fengu engin alvöru marktæki færi þannig að þetta var allt í lagi leikur," sagði landsliðsþjálfarinn Lars Lagerbäck eftir sigurinn í Andorra í kvöld.

„Það var gott fyrir leikmenn sem hafa ekki verið að spila mikið með félögum sínum að fá að heilan leik og ég get þá nefnt menn eins og Sölva Geir Ottesen og Birki Bjarnason. Þeir ættu að njóta góðs af því að hafa klárað 90 mínútur í kvöld," sagði Lagerbäck en Sölvi hefur verið mikið á bekknum hjá FC Kaupmannahöfn alveg eins og Birkir hjá Pescara á Ítalíu.

„Við áttum góð færi í leiknum sem við nýttum ekki og ef annaðhvort liðið átti að skora fleiri mörk í þessum leik þá vorum það við. Ég get verið örlítið vonsvikinn með að við vorum ekki skilvirkari í sóknarleiknum. Við stjórnuðum hinsvegar leiknum vel og liðið hélt einbeitingunni allan tímann. Þeir vörðust með níu mönnum þannig að það var erfitt að brjóta þá á bak aftur," sagði Lars.

„Ég er nokkuð sáttur með árið fyrir utan þessi stig sem ég vildi fá til viðbótar í undankeppninni. Að öðru leyti var þetta gott ár fyrir íslenska landsliðið," sagði Lars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×