Íslenski boltinn

Stelpurnar mæta Úkraínu á Krímskaganum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Daníel
Íslenska kvennalandsliðið tekur í næsta mánuði þátt í umspili um sæti í úrslitakeppni Evrópumótsins í Svíþjóð sem fram fer næsta sumar. Nú er orðið ljóst hvenær umspilsleikir liðsins á móti Úkraínu fara fram en KSÍ segir frá því í frétt á heimasíðu sinni.

Fyrri leikurinn fer fram laugardaginn 20. október í Sevastopol í Úkraínu en sá síðari verður hér á Laugardalsvellinum, fimmtudaginn 25. október.

Sevastopol er 380 þúsund manna borg í Úkraínu og er hún á Krímskaganum, niður við Svartahaf. Það er því ljóst að langt ferðalag bíður íslenska hópsins.

Úkraína spilaði tvo af fjórum heimaleikjum sínum í undankeppninni í Sevastopol. Liðið tapaði þar 0-1 á móti Hvíta-Rússlandi í nóvember 2011 og vann síðan 5-0 sigur á Eistlandi í apríl á þessu ári. Úkraínska landsliðið spilaði hina tvo leikina í Chernihiv og vann hvorugan en Chernihiv er í norðurhluta landsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×