Handbolti

ÍR-ingar Reykjavíkurmeistarar í handbolta karla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Þór Hólmgeirsson í leiknum í kvöld.
Björgvin Þór Hólmgeirsson í leiknum í kvöld. Mynd/Stefán
ÍR-ingar unnu í kvöld fyrsta titilinn í karlahandboltanum í vetur þegar þeir tryggðu sér Reykjavíkurmeistaratitilinn með fjögurra marka sigri á Val í Vodafone-höllinni. ÍR-ingar unnu alla fimm leiki sína í mótinu í ár en þeir eru að koma upp í N1 deild karla að nýja og hafa endurheimt marga uppalda ÍR-inga.

ÍR-ingar unnu leikinn 26-22 eftir að hafa verið 13-11 yfir í hálfleik. Sturla Ásgeirsson skoraði 12 mörk fyrir ÍR í kvöld á móti sínum gömlu félögum í Val og Björgvin Þór Hólmgeirsson skoraði 5 mörk. Kristófer Fannar Guðmundsson varði líka vel í markinu.

Bjarki Sigurðsson, þjálfari ÍR, var vissulega ánægður þegar Vísir heyrði í honum í kvöld en spar á yfirlýsingarnar þrátt fyrir að fyrsti titilinn sé kominn í hús.

„Það er alltaf gaman að vinna titla en þetta er æfingamót og bara byrjunin á tímabilinu. Við erum búnir að taka þátt í tveimur öðrum æfingamótum með úrvalsdeildarliðum. Menn eru að reyna að spila sig saman enda er ég bara með nýtt lið í höndunum. Þetta tekur ákveðinn tíma en við erum allavega að sýna framfarir," sagði Bjarki en hann fagnar því að fá allt gömlu ÍR-ingana heim.

„Það er ekki spurning. Ég er með breiðan og góðan hóp og það er valinn maður í hverju rúmi," sagði Bjarki Sigurðsson, þjálfari nýkrýndra Reykjavíkurmeistara í handbolta karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×