Íslenski boltinn

Eyjólfur: Viljum gefa yngri leikmönnum reynslu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tómas Ingi Tómasson og Eyjólfur Sverrisson.
Tómas Ingi Tómasson og Eyjólfur Sverrisson. Mynd/Anton
Eyjólfur Sverrisson, þjálfari U-21 liðs karla, segir að hann hafi kosið frekar að gefa yngri leikmönnum tækifæri í lokaleik Íslands í riðlinum en að velja bestu leikmennina sem völ er á.

„Það eru fullt af góðum leikmönnum sem eru á eldra árinu sem eiga erindi í U-21 landsliðið nú," sagði Eyjólfur í samtali við Hjört Hjartarson á X-inu 977.

„En við erum að breyta liðinu til að undirbúa það fyrir næstu keppni. Við höfum ekki riðið feitum hesti frá þessari keppni og hafa þó margir leikmenn fengið tækifæri með liðinu. Við höfum samt ekki sýnt góða leiki og ekki staðið okkur nógu vel," sagði hann.

„Við viljum fá leikmenn inn í hópinn til að gefa þeim smá reynslu. Við viljum nýta þetta tækifæri til að undirbúa okkur sem best fyrir næstu keppni enda skiptir þessi leikur ekki mjög miklu máli fyrir núverandi keppni," sagði Eyjólfur en Ísland er neðst í sínum riðli með þrjú stig fyrir lokaumferðina.

„Það eru mjög fáir æfingaleikir hjá U-21 landsliðinu og ekkert fast í hendi enn sem komið er hvað það varðar."

Sem fyrr segir eru margir leikmenn ekki valdir sem eru gjaldgengir í liðið. Meðal þeirra má nefna Rúnar Már Sigurjónsson, Björn Daníel Sverrisson, Kolbein Kárason og Kristinn Jónsson.

„Þetta eru leikmenn sem hefðu getað nýst liðinu mjög vel, enda góðir leikmenn. En við erum að reyna að nýta leikinn fyrir annað. Belgarnir eru að gera það sama við og hafa valið fullt af yngri leikmönnum í sitt lið."


Tengdar fréttir

Níu nýliðar í U-21 landsliðinu

Eyjólfur Sverrisson hefur valið U-21 landslið Íslands sem mætir Belgíu í undankeppni EM 2013. Þetta er síðasti leikur Íslands í riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×