Íslenski boltinn

Lagerbäck þurfti ekki að skoða Alfreð í kvöld - þarf að koma sínu á hreint

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason. Mynd/Nordic Photos/Getty
Alfreð Finnbogason fékk ekki tækifæri hjá Lars Lagerbäck í 2-0 sigrinum á Færeyjum í kvöld og vakti það nokkra athygli enda hefur Alfreð verið að raða inn mörkum í sænsku deildinni í sumar.

Landsliðsþjálfarinn Lars Lagerbäck vill sjá Alfreð ganga frá sínum málum sem fyrst en Alfreð hefur verið á láni hjá Helsingborg í sumar. Hann er í eigu belgíska félagsins Lokeren og lánsamingurinn er að renna út.

„Alfreð þarf að fara koma því á hreint hvar hann ætlar að spila í framtíðinni. Hann hefur verið að hugsa sína stöðu og við ræddum saman um næstu skrefin hjá honum. Ég þekki hann mjög vel núna því ég hef séð marga leiki með honum í Svíþjóð. Ég veit hvað hann getur og það er ástæðan af hverju við notuðum hann ekki í dag," sagði Lars Lagerbäck

Alfreð Finnbogason hefur skorað 12 mörk í 17 leikjum í sænsku úrvalsdeildinni á þessu tímabili og er næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar eins og staðan er í dag. Alfreð hefur komið inn á sem varamaður í tveimur leikjum undir stjórn Lars Lagerbäck og skoraði í öðrum þeirra, mark Íslands í 1-2 tapi á móti Svartfjallalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×