Innlent

Einn handtekinn á mótmælunum - segir lögregluna hafa farið offari

„Það var sérkennilegt að sjá hversu mikill viðbúnaður var þarna," segir María Lilja Þrastardóttir, sem ásamt hópi mótmælenda tóku sér stöðu fyrir framan rússneska sendiráðið í dag til þess að sýna hljómsveitinni Pussy Riot samhug. Konurnar í hljómsveitinni voru handteknar í Rússlandi í mars síðastliðnum fyrir að halda pönktónleikar í kirkju þar sem þær kröfðust þess að Vladimar Pútin, forsætisráðherra Rússlands, yrði settur af.

Konurnar hafa verið í gæsluvarðhaldi í um fimm mánuði en málið hefur vakið heimsathygli og þótt varpa ljósi á skoðanakúgun í landinu.

En mótmælin hér á landi gengu ekki áfallalaust fyrir sig þrátt fyrir að þau voru friðsöm að mestu leyti. Þannig var ungur maður handtekinn en í tilkynningu frá lögreglu segir að maðurinn hafi veist að lögreglumönnum sem ætluðu að hafa afskipti af öðrum mótmælanda. Sá hafði flaggað fána í flaggstöng sendiráðsins. Starfsmaður sendiráðsins kom því næst út en maðurinn sem síðar átti eftir að verða handtekinn gekk á milli mótmælandans og starfsmannsins að sögn Maríu Lilju.

„Svo komu skyndilega einhverjir sérsveitarlögreglumenn og handtóku hann," lýsir María Lilja og segir að það hafi hleypt nokkuð illu blóði í mótmælin þó svo að engin frekari átök hafi átt sér stað á milli fylkinga.

María Lilja segist ánægð með mótmælin, fyrir utan handtökuna, skilaboðunum hafi verið komið áleiðis. María Lilja furða sig samt á viðbúnaði lögreglunnar, „Lögreglan var eiginlega eini aðilinn sem var með vesen á mótmælunum," bætir hún við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×