Handbolti

Benedikt Reynir til liðs við Aftureldingu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ásgeir Sveinsson, formaður meistaraflokksráðs, með Benedikt Reyni.
Ásgeir Sveinsson, formaður meistaraflokksráðs, með Benedikt Reyni. Mynd/Afturelding
Mosfellingar hafa fengið liðsstyrk fyrir næsta tímabil í N1-deild karla en Benedikt Reynir Kristinsson hefur skrifað undir tveggja ára samning við Aftureldingu.

Benedikt Reynir er 22 ára hornamaður sem er uppalinn hjá FH í Hafnarfirði. Hann varð Íslandsmeistari með liðinu árið 2011 en lék með Gróttu á nýliðinni leiktíð.

Hann mun því hitta fyrir annan fyrrum leikmann FH hjá Aftureldingu því á dögunum gekk Örn Ingi Bjarkason, sem er reyndar uppalinn hjá Aftureldingu, aftur til liðs við Mosfellinga.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá meistaraflokksráði Aftureldingar að von sé á fleiri leikmönnum í liðið og því ljóst að Mosfellingar ætla sér stóra hluti á næstu leiktíð. Reynir Þór Reynisson mun áfram þjálfa liðið.

Afturelding hafnaði í sjöunda og næstneðsta sæti N1-deildar karla í vor en hélt sæti sínu í deildinni með því að hafa betur gegn Stjörnunni í úrslitum umspilskeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×