Sport

Biðin loks á enda

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hjalti Bergmann Eiðsson, einn fremsti boccia-spilari landsins um árabil, verður meðal keppenda um helgina.
Hjalti Bergmann Eiðsson, einn fremsti boccia-spilari landsins um árabil, verður meðal keppenda um helgina. Mynd / Íþróttasamband fatlaðra
Bestu boccia-spilarar landsins verða á meðal þátttakenda á Norðurlandamótinu sem fer fram í Laugardalshöll um helgina. Mótið fer fram á tveggja ára fresti en íslensku keppendurnir komust ekki á mótið í Danmörku 2010 vegna öskufalls úr gosinu í Eyjafjallajökli.

Biðin eftir Norðurlandamótinu hefur því verið löng hjá íslensku keppendunum. Alls verða 22 fremstu boccia-spilarar Íslands meðal keppenda en heildarfjöldi þátttakenda er 79. Auk Íslendingana verða 11 Danir, 16 Finnar, 3 Færeyingar, 15 Norðmenn og 12 Svíar sem etja kappi í Laugardalshöllinni.

Aðeins bestu spilarar í hverjum fötlunarflokki þjóðanna sex fá þátttökurétt og komast færri að en vilja. Hafa skal í huga að boccia er vinsælasta íþróttagrein meðal fatlaðra á Norðurlöndunum ef miðað er við iðkendafjölda.

Norðurlandamótið fór síðast fram hér á landi árið 2000 þegar keppt var í Reykjanesbæ. Besti árangur Íslendings á Norðurlandamóti náði Margrét Edda Stefánsdóttir árið 2002 þegar hún hlaut bronsverðlaun í rennuflokki.

Mótið verður sett í Laugardalshöll klukkan 9:45 á laugardag og hefst keppni í kjölfarið. Á sunnudeginum hefst keppni klukkan 9:30 og lýkur klukkan 16. Verðlaunafhending fer fram um leið og keppni lýkur í hverjum flokki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×