Sport

Sigurjón elsti ofurhlauparinn og stóð sig vel

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigurjón er stuðningsmaður Liverpool ef marka má treyjuna sem hann klæðist á myndinni.
Sigurjón er stuðningsmaður Liverpool ef marka má treyjuna sem hann klæðist á myndinni. Mynd / Heimasíða 100km hlaupara á Íslandi
Sigurjón Sigurbjörnsson, Íslandsmeistari í 100 kílómetra hlaupi, stóð sig með ágætum í Evrópu- og heimsmeistarakeppni ofurhlaupara sem fram fór í Seregno á Ítalíu um síðustu helgi.

Sigurjón hljóp kílómetrana eitt hundrað á tímanum 8:07:43 klst sem er næstbesti tími hans. Íslandsmetið, sem Sigurjón setti á síðasta ári, er 7:59:07 klst.

Sigurjón hafnaði í 53. sæti í Evrópukeppninni en 72 hlauparar luku keppni. Sami tími skilaði honum 69. sæti í heimsmeistarakeppninni en 165 keppendur luku keppni.

Árangur Sigurjóns er athyglisverður í ljósi þess að hann var aldursforseti keppninnar. Sigurjón er 57 ára gamall.

Heimamaðurinn Giorgio Calcaterra hljóp á bestum tíma eða 6:23:20 klst og tryggði sér sigur í báðum keppnum. Nánari upplýsingar um úrslit keppninnar má sjá með því að smella hér.

Félag 100 kílómetra hlaupara á Íslandi heldur úti heimasíðu sem skoða má með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×