Fótbolti

Zlatan: Ég var meiri maður en Guardiola

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic og Pep Guardiola,
Zlatan Ibrahimovic og Pep Guardiola, Mynd/AFP
Zlatan Ibrahimovic er ekkert hættur orðastríði sínu við Pep Guardiola, þjálfara Barcelona, þótt að Barcelona-liðið sé búið að slá Zlatan og félaga hans í AC Milan út úr Meistaradeildinni.

Ibrahimovic yfirgaf Barcelona eftir aðeins eitt tímabil þrátt fyrir að hafa staðið sig vel með liðinu inn á vellinum en hann skoraði 22 mörk í 46 leikjum með Barca. Ósætti við þjálfarann sáu hinsvegar til þess að Zlatan var fórnað á Camp Nou.

Ibrahimovic hefur síðan notað hvert tækifæri til að drulla yfir gamla þjálfara sinn og nýjasta árásin er í viðtali í maíhefti fótboltablaðsins Four Four Two.

„Þegar ég yfirgaf Barcelona þá sagði ég við sjálfan mig: Ég er að fara frá besta félaginu í heimi af því að það er einn maður sem er ósáttur með mig," sagði Zlatan Ibrahimovic.

„Hann hagaði sér ekki karlmannlega með því að segja mér ekki hvert vandmálið væri. Ég vissi ekki hvert vandamálið var en var samt sem áður meiri maður en hann þegar ég ákvað að fara," sagði Zlatan.

„Ég reyndi í nokkra mánuði að fá einhver svör en fékk þau aldrei. Á endanum sagði ég að þetta væri algjört kjaftæði og ég þyrfti ekki á þessu að halda. Ég fer frekar þangað sem ég fær einhver svör og fæ að spila minn leik," sagði Zlatan.

Zlatan er búinn að skora 50 mörk í 77 leikjum með AC Milan og hjálpaði liðinu að verða ítalskur meistari á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×