Íslenski boltinn

Sigurður Ragnar hrósaði nokkrum leikmönnum eftir tapið á móti Svíum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Landsliðsþjálfarinn var ánægður með frammistöðu Guðnýjar Bjarkar Óðinsdóttur í dag.
Landsliðsþjálfarinn var ánægður með frammistöðu Guðnýjar Bjarkar Óðinsdóttur í dag. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari kvenna í fótbolta, var ánægður með frammistöðu nokkra leikmanna íslenska liðsins þrátt fyrir 1-4 tap á móti Svíum í Algarvebikarnum í dag. Sigurður Ragnar nefndi sérstaklega frammistöðu fjögurra leikmanna íslenska liðsins.

„Það var gaman að prófa Hólmfríði í framlínunni og hún var mjög frísk þar til að hún var orðin þreytt í restina. Hún gerði rosalega vel í að fá vítið en það var frábært einstaklingsframtak hjá henni," sagði Sigruður Ragnar um Hólmfríði Magnúsdóttur sem leysti Margréti Láru Viðarsdóttur í stöðu fremsta manns.

„Dóra María kláraði vítið vel og stóð sig fínt í leiknum," sagði Sigurður Ragnar en Dóra María tók síðan við fyrirliðabandinu þegar Katrín Jónsdóttir fór útaf á 80. mínútu.

„Mér fannst Rakel Hönnudóttir eiga mjög góðan leik í hægri bakverðinum. Það voru ljósir punktar. Mér fannst Guðný Óðinsdóttir standa sig vel og það var flott að sjá hana í byrjunarliðinu því hún virkar í mjög góðu formi," sagði Sigurður Ragnar en Guðný Björk spilaði inn á miðjunni í leiknum.

„Það var ekki gaman að koma inn í hálfleik og vera 4-1 undir en mér fannst samt leikmenn vera að reyna að gera vel og að leggja sig fram. Við náðum upp góðu spili og gátum skorað fleiri mörk þannig að þetta var ekki alslæmt. Við erum meira að horfa á frammistöðu leikmanna heldur en úrslit leikjanna í þessu móti en það er auðvitað alltaf mikilvægt að vinna og við stefnum alltaf á það að vinna leikina," sagði Sigurður Ragnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×