Íslenski boltinn

Hundrað japanskir blaðamenn mættu á fundinn hjá Lagerbäck

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lars Lagerbäck.
Lars Lagerbäck. Mynd/Vilhelm
Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu, hélt blaðamannafund í morgun að íslenskum tíma fyrir vináttulansleik Íslands og Japans á morgun. Blaðamannafundurinn var fjölmennur samkvæmt frétt á ksi.is en hátt í eitt hundrað fulltrúar fjölmiðla voru mættir til að varpa spurningum til þjálfaranna tveggja. Lagerbäck var spurður fjölmargra spurninga.

Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport á morgun, föstudaginn 24. febrúar. Hann hefst klukkan 10:20 að íslenskum tíma en útsendingin hefst 10 mínútum fyrr.

Lars sagðist alltaf byggja lið sitt á sterkum varnarleik, lykilatriði í öllu leikskipulagi og hann tók skýrt fram að hann hefði "engar sérstakar áhyggjur af því hvort lið hans spili skemmtilegan fótbolta, aðalmálið er að leika vel og ná í stig, helst sigur í hverjum leik. Það þýðir þó ekki að það verði að leika blússandi sóknarbolta, flestir leikir vinnast á sterkum varnarleik," hefur heimasíða KSÍ eftir Lars Lagerbäck af fundinum.

"Þessi leikur er auðvitað bara fyrsti leikurinn í undirbúningi liðsins fyrir undankeppni HM 2014, en menn eiga samt alltaf að leika til sigurs, það er ekki síður mikilvægt að fá menn til að hugsa eins og sigurvegara (innsk. "winning mentality")," sagði Lagerbäck.

Mikill áhugi er fyrir leiknum ytra og er uppselt á Nagai leikvanginn í Osaka en þessi völlur tekur um 50.000 manns. Leikið var m.a. á þessum velli á HM 2002 en þrír af leikjum keppninnar fór þar fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×