Innlent

Agnes biðst afsökunar - heilsíður í öllum blöðum

Náðst hafa sættir í meiðyrðarmáli sem fréttastjóri DV höfðaði gegn Agnesi Bragadóttur, blaðamanni á Morgunblaðinu, vegna fréttaflutnings blaðsins 31. janúar af dularfullri fartölvu sem fannst á Alþingi og meintum tengslum hennar við pilt sem talinn er hafa stolið gögnum frá Milestone. Fullvíst má telja að um afsökunarbeiðni án fordæmis sé að ræða því heimildir Vísis herma að heilsíðuauglýsingar með afsökunarbeiðninni muni birtast í Morgunblaðinu, Fréttablaðinu, DV og Fréttatímanum á morgun.

Í frétt Morgunblaðsins sagði að Ingi Freyr væri grunaður um að hafa greitt piltinum fyrir að stela gögnunum, birt upp úr þeim fréttir og að Ingi Freyr hefði réttarstöðu grunaðs manns í rannsókninni. Þetta reyndist rangt og staðfestu yfirmenn lögreglunnar það í fjölmiðlum. Ingi krafðist tveggja milljóna í bætur auk hálfrar milljónar til að kosta birtingu dómsins opinberlega. Þingfesting í málinu átti að fara fram í dag.

Auk heilsíðuauglýsinganna greiðir Morgunblaðið Inga Frey bætur, samkvæmt heimildum Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×