Skoðun

Almannahagsmunir?

Þorleifur Gunnlaugsson skrifar
Það er ankannalegt að vera Vinstri grænn og tala gegn tillögu sem borin er upp undir merkjum endurvinnslu. En þegar formaður umhverfis- og samgönguráðs, Bestaflokksfulltrúinn Karl Sigurðsson, leggur í þá vegferð að blanda mikilvægu umhverfismáli saman við útvistun og einkavæðingu verður að flokka hismið frá kjarnanum.

Til stendur að afgreiða tillöguna frá ráðinu í dag. Þar er lagt til að til viðbótar við aukna flokkun á heimilisúrgangi (þar sem pappírs- og plastefni verði flokkuð í sértunnu) verði ekki aðeins stór hluti sorphirðu borgarinnar boðinn út heldur einnig móttaka og úrvinnsla.

Að einkaaðilar sinni hirðu og móttöku endurvinnsluefna (þess hluta sem er hægt að hagnast á) en Sorphirða borgarinnar hirði annað og það fari til SORPU bs. Það mun ekki ganga til lengdar að hirðu frá heimilum verði sinnt af tveimur aðilum og því metur sorphirðufólk og verkalýðsfélag þess þetta svo að stefnt sé að útvistun allrar sorphirðu borgarinnar. Jafnframt þessu er ógnað tilveru SORPU, tæplega tveggja milljarða króna fjárfestingu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Rekstrargrundvöllurinn veikist þegar stór hluti þess sem fyrirtækið hefur verið byggt upp til að taka á móti, fer annað.

Tillögum Karls fylgja engir útreikningar og ekki er reynt að sýna fram á hagkvæmni þess að bjóða út sorphirðu sem hingað til hefur komið vel út í öllum þjónustukönnunum eða að það sé hagkvæmara að einkavæða móttökuna. Í tengslum við Evróputilskipun í úrgangsmálum og svæðisáætlun hefur Sorpa hinsvegar gert áætlanir um flokkunarstöð, gas og jarðgerðarstöð og þar er reiknað með að þær úrlausnir muni ekki hækka sorphirðugjöld íbúanna.

Fákeppni á úrgangsmarkaði er gríðarleg á Íslandi og einokun gæti hækkað sorphirðugjöld.

Þetta mál á að bera undir íbúa borgarinnar. Kostir kynntir, kostnaður metinn og upplýst ákvörðun tekin í framhaldi þess.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×