Skoðun

Dagrenning

Lifandi skelfingar ósköp er niðdimm þoka búin að umlykja Sjálfstæðisflokkinn undanfarin misseri: Seðlabankinn hættur að gefa út hin arðvænu Ástarbréf; Hannes Hólmsteinn leystur frá störfum sem ráðsmaður um fjármál og efnahagsmál ríkisins; Kjartani gert ómögulegt að stunda arðsöm viðskipti við S-menn um banka og verðbréf þeirra; bankaráð Seðlabanka séð eftir Helga horska í 15 – fimmtán- heimsreisur eftir að hann hafði starfað að gullgreftri um árabil; einkavinurinn Halldór Ásgrímsson flúinn úr landi, maðurinn sem stjórnaði flokki „sem getur verið stoltur af verkum sínum“, vann ávallt „eftir bestu sannfæringu“ og „samstarf hans og Davíðs Oddssonar í ríkisstjórn var þjóðinni einkar gæfuríkt“ svo vitnað sé orðrétt í Sjálfstæðisflokksþingmanninn Illuga Gunnarsson; og Finnur Ingólfsson að bíða eftir fundarlaunum vegna sjóðs Samvinnutrygginga, sem hann og félagar hans fundu á förnum vegi.

Má raunar segja að „ragnarökur“ hafi gengið í garð í Valhöll Sjálfstæðisflokksins, eða eins og Snorri segir:

„Sól mun sortna,

sökkur fold í mar,

hverfa af himni

heiðar stjörnur.“

En nú mun „ragnarökur“ um þann garð gengið, eða eins og Hárr segir í Gylfaginningu: „Upp skýtur jörðinni þá úr sænum og er þá græn og fögr. Vaxa þá akrar ósánir.“

Kögunarhólsmaður Fréttablaðsins telur nú færi á að mynda nýjan pólitískan öxul með Sjálfstæðisflokki, Kögunarerfingja Framsóknarflokksins og Steingrími Samherjafóstra.

Þegar uppeldisdóttir Valhallarmanna er sezt í formannsstól Sjálfstæðisflokksins munu uppalendur hennar taka við völdum á nýjan leik: Kjartan mun þá strax skipaður formaður bankaráðs Landsbanka Íslands til að einkavæða bankann á nýjan leik; Hólmsteinn settur seðlabankastjóri og undireins hafin hátíðarútgáfa Ástarbréfa; Helgi horski skipaður varaformaður á báðum stöðum; Halldór kallaður til landsins að annast úthlutun veiðileyfa án keypis, og endurreisa „Mónu“ á Hornafirði í von um frekari afskriftir; mælar Orkuveitu Reykjavíkur keyptir af Finni fyrir 100 – eitt hundrað- milljarða króna til þess sérstaklega að hann hafi undan ef krónan skyldi taka upp á að rýrna rétt eina ferðina enn.

„Og þá verður bylting í ríki útvaldra,“ eins og Þórbergur segir í lok bréfs til Láru.

Og kátt í hárri Val-höll.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×