Menntamálaráðuneytið er að ljúka við drög að nýjum samningi í samstarfi við kvikmyndaráð. Hann felur í sér aukin fjárframlög til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands næstu fimm árin.
Vinna við samninginn á að klárast síðar í þessum mánuði og tekur hann gildi á næsta ári ef hann verður samþykktur á Alþingi. Elías Jón Guðjónsson, aðstoðarmaður Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, staðfesti þetta en kvað ekki tímabært að ráðherra tjáði sig um málið.
„Það er algjört lykilatriði að hafa vitneskju um og yfirsýn yfir hvað verður til ráðstöfunar á næstu árum því öll framleiðsla tekur svo langan tíma," segir Laufey Guðjónsdóttir, forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, sem er orðin þreytt á þeirri óvissu sem hefur verið í íslenskri kvikmyndagerð að undanförnu.
„Við vonumst til að hægt verði að plana meira fram í tímann ef þessi samningur dettur inn."
Framlag ríkisins til Kvikmyndamiðstöðvarinnar, sem hefur umsjón með Kvikmyndasjóði, er það sama í ár og í fyrra, 450 milljónir króna. Þrjátíu prósenta niðurskurður féll í grýttan jarðveg hjá kvikmyndagerðarmönnum á sínum tíma en með nýja samningnum gæti hagur þeirra vænkast eitthvað á næstu árum.
Miðað við úthlutun Kvikmyndasjóðs fær engin mynd framleiðslustyrk á þessu ári en slíkan styrk geta þær myndir fengið sem eru tilbúnar í tökur. Þetta er mikil breyting frá því á sama tíma í fyrra þegar sex myndir fengu slíkan styrk.
Einhverjar af þeim myndum verða frumsýndar í ár, þar á meðal Eldfjall og Djúpið.- fb
