Innlent

Jamie Cullum spilar í Hörpunni í júní

Breski tónlistarmaðurinn Jamie Cullum kemur fram á tónleikum í Hörpunni 23. júní næstkomandi. Cullum verður þar með fyrsta erlenda poppstjarnan sem kemur fram í tónlistarhúsinu við höfnina.

Jamie Cullum hefur um nokkurt skeið verið með vinsælustu tónlistarmönnum Breta. Hann er í grunninn djasstónlistarmaður en hefur tekist að brúa bilið á milli djassins og popptónlistar.

Þannig hefur hann komið fram á tónlistarhátíðum eins og Glastonbury og unnið með tónlistarmönnum á borð við Kylie Minogue og Burt Bacharach. Hann hlaut Golden Globe-verðlaunin fyrir tónlist sína í kvikmynd Clints Eastwood, Gran Torino. Jamie Cullum er kvæntur fyrrum fyrirsætunni Sophie Dahl og eiga þau von á fyrsta barni sínu í vor.

Það er Þorsteinn Stephensen sem stendur að tónleikum Cullums undir merkjum Hr. Örlygs.

„Með tilkomu Hörpunnar komumst við á nýtt plan. Þarna er komið tækifæri til að halda nýja tegund af tónleikum; sitjandi tónleikum með gæðalistamönnum. Þessir tónleikar eru fyrsta skrefið í því," segir Þorsteinn sem hefur verið búsettur á Spáni síðustu átta árin. Hann hefur lítið látið fyrir sér fara síðan hann hætti skipulagningu Iceland Airwaves-hátíðarinnar fyrir rúmu ári.

„Það hefur verið rólegt yfir tónleikahaldi og verður það kannski áfram. En það hlýtur að fara að lifna yfir landanum," segir Þorsteinn sem útilokar ekki að fleiri tónlistarmenn spili á Íslandi á hans vegum á árinu. Miðasala á tónleikana hefst 10. mars næstkomandi.-hdm

Hér fyrir ofan má sjá myndband Jamie Cullum við lagið I'm All Over It.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×