Handbolti

Ernir: Skelfileg sókn í fyrri hálfleik

Hjalti Þór Hreinsson á Akureyri skrifar
Ernir Hrafn Arnarsson leikmaður Vals var besti leikmaður liðsins í kvöld sem liðið tapaði fyrir Akureyri, 28-26 í N1-deildinni.

Staðan í hálfleik var 17-10 fyrir Akureyri.

"Það var mikilvægt augnablik í lok fyrri hálfleiks þegar við gátum minnkað muninn í þrjú mörk en töpuðum boltanum og þeir keyrðu á okkur. Þeir náðu þessu upp í sjö og það var mjög erfitt. Við héldum ekki haus til að ná þeim alveg í seinni hálfleik."

"Þeir náðu hraðaupphlaupunum með slakri sókn okkar í fyrri hálfleik en þetta lagaðist í þeim seinni. Þegar við náum að stilla upp vörninni þá var þetta í fínu lagi," sagði Ernir.

Hann var einn fárra leikmanna sem fundu sig almennilega, sér í lagi fyrir utan en þeir Alex Jedic og Anton Rúnarsson voru með hörmulega skotnýtingu.

"Alex þarf smá sjálfstraust, Anton hefur verið heitur undanfarið. Svona gerist bara."

Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, var lítið með liðinu í janúar þar sem hann var með landsliðinu á HM í Svíþjóð.

"Við söknuðum Óskars að vissu leiti í janúar, við einbeittum okkur að öðru en hann fer oft í. Það var allt í lagi eftir að hann kom heim þannig að kannski söknuðum við hans ekkert um of," sagði Ernir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×