Íslenska futsal-landsliðið er greinilega búið að finna taktinn því liðið fylgdi eftir 6-1 sigri á Armenum með því að vinna 5-4 sigur á Grikkjum í lokaleik riðils síns í forkeppni Evrópumótsins sem fram fór á Ásvöllum í kvöld.
Ísland endaði í 2. sæti á eftir Lettum sem unnu riðilinn og tryggðu sér sæti í næstu umferð. Lettar unnu 2-1 sigur á Armenum í lokaleik sínum en liðið vann 5-4 sigur á Íslandi í fyrsta leik.
Eyjamaðurinn Þórarinn Ingi Valdimarsson skoraði tvö mörk fyrir íslenska liðið í kvöld og hin mörkin gerðu þeir Tryggvi Guðmundsson, Þorsteinn Már Ragnarsson og Magnús Þorsteinsson. Magnús átti auk þess tvær stoðsendingar en Tryggvi og Eiður Aron Sigurbjörnsson lögðu báðir upp eitt mark.
Grikkir komust yfir eftir sjö mínútur en íslenska liðið svaraði með mörkum frá Þórarrni og Tryggva fyrir hálfleik. Þórarinn skoraði síðan aftur áður en Þorsteinn og Magnús komu íslenska liðinu í 5-1. Grikkinn Spyridon Gritzalis skoraði þrjú síðustu mörkin en íslenska liðið hélt út og fagnaði góðum sigri.
Íslenski boltinn