Handbolti

Róbert: Sjálfum okkur að kenna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Framarinn Róbert Aron Hostert sagði margt jákvætt við leik sinna manna gegn FH í kvöld en liðin gerðu jafntefli, 26-26, í fyrstu umferð N1-deildar karla eftir frí.

„Við lögðum upp með að vinna þennan leik. En FH er með mjög gott lið og því getum ágætlega unað við þetta eina stig," sagði Róbert sem lét mikið af sér kveða í síðari hálfleik og skoraði þá sjö af átta mörkum sínum í leiknum.

„Ég bara tók af skarið. Einhver verður að gera það," sagði hann af hógværð. „Þrátt fyrir að deildin hefur verið í fríi hef ég fengið lítið frí frá handbolta. Ég var mikið með (U-21) landsliðinu um jólin en það er fínt að vera byrjaður í deildinni aftur."

„Við spiluðum alveg þokkalega í kvöld. Kannski var varnarleikurinn ekki nógu góður og þá fylgir markvarslan ekki með. En við skorum 26 mörk í kvöld sem er ágætt. En við klúðruðum nokkrum dauðafærum og vítum og getum því aðeins sjálfum okkur um kennt."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×