Skoðun

Menntun hent út með baðvatninu

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir skrifar
Íslendingar hafa lengi búið við grunnskólakerfi þar sem jafnræði nemenda til náms, óháð efnahag og menntun foreldra, er tryggt með lögum. Sterk hefð er fyrir hverfisskólanum og það hefur sýnt sig að þrátt fyrir að foreldrar í Reykjavík eigi þann kost að velja barni sínu skóla óháð hverfi hafa þeir ekki nýtt sér þann kost að neinu marki. Eftir að sveitarfélög tóku við rekstri grunnskóla hafa skólar smám saman markað sér hver sína sérstöðu eins og kemur skýrt fram í mikilli grósku í skólastarfi. Skólastefna hvers skóla hefur orðið sýnilegri og er sett fram af metnaði. Þetta eykur gæði þeirrar menntunar sem börn fá á tíu ára grunnskólagöngu.

Reykjavíkurborg lagði upp með að í hverju hverfi borgarinnar væri grunnskóli og útkoman hefur orðið sú að til urðu litlir skólar á mælikvarða borgar, skólar með nemendafjölda frá 150 til 600. Þessi mismunur gerir það að verkum að niðurskurður á kennslumagni bitnar mismikið á skólum.

Sá niðurskurður sem nú er að fara í framkvæmd boðar stærri nemendahópa, fábreytt námsval og aukna samkennslu árganga. Hann mun leiða til ójafnræðis milli skóla. Það gefur til dæmis auga leið að nemandi í þrjátíu nemenda námshópi fær ekki sambærilega kennslu og sá sem er í sautján nemenda hópi. Íslenski grunnskólinn hefur skapað sér sérstöðu með öflugri kennslu í list- og verkgreinum og víða hlotið hrós fyrir; sú sérstaða er nú einnig í mikilli hættu. Verði nemendahópar stækkaðir í þessum greinum eins og allt útlit er fyrir er ljóst að börn munu fá verri kennslu.

Samfélagssáttmálinn sem felst í grunnskólalögunum og sameiginlegur skilningur þjóðarinnar um að jafnræði skuli ríkja um menntun fyrir alla, óháð efnahag, búsetu og menntun foreldra, er í mikilli hættu. Foreldrar, kennarar og aðrir Íslendingar: Stöðvum þessa árás á menntun barnanna okkar. Strax.

 




Skoðun

Sjá meira


×