Handbolti

Atli: Dýrt að nýta ekki vítin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/HAG
Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, segir það erfitt að hafa horft upp á þriðja tapleik sinna manna í röð en liðið tapaði naumlega fyrir Haukum í Hafnarfirði í kvöld, 23-22.

„Við fengum fullt af færum í leiknum og fullt af vítaköstum sem við nýttum okkur ekki,“ sagði Atli en alls varði Birkir Ívar Guðmundsson 21 skot í leiknum, þar af fjögur vítaköst Akureyringa.

„Við byrjuðum illa í upphafi beggja hálfleikja og það er of mikið að láta 4-5 mínútur líða án þess að skora mark. Það getur skipt miklu máli. Það verður þó ekki af mínum mönnum tekið að við vorum að komast í færin og strákarnir voru að berjast eins og menn.“

„Þó svo að við lentum stundum 3-4 mörkum undir þá náðum við að halda okkur inni í leiknum og það fyllir mig áfram trú um að þetta fari að detta fyrir okkur. En það er auðvitað erfitt að horfa upp á tapið og mér fannst við eiga annað stigið skilið.“

„Það hefði verið gott að komast yfir en Haukarnir eru með flott lið og Birkir Ívar var frábær í dag. Ég var líka ánægður með Bubba (Sveinbjörn Pétursson) í okkar marki en þessi víti sem við klikkuðum á eru dýr.“

Hreinn Þór Hauksson gaf það út í vor að hann væri hættur enda á leiðinni til Svíþjóðar í nám. Hann var sóttur sérstaklega í þennan leik og lenti á landinu í dag.

„Hann var flottur í dag og hann gerði mikið fyrir okkur í dag. Svo fer hann aftur heim á morgun en kemur svo aftur fyrir leikinn gegn Val og spilar með okkur þá. Við erum bara í þeirri stöðu að okkur vantar sárlega leikmenn enda mjög erfitt að missa fimm leikmenn í langvarandi meiðsli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×