Handbolti

Einar: Er greinilega svona slakur þjálfari

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Það verður nóg að gera hjá Einari Jónssyni í vetur því hann mun áfram þjálfa kvennalið Fram og hefur svo bætt við sig karlaliði félagsins. Kvennaliðinu var spáð öðru sæti í spánni í dag en karlaliðinu fjórða til fimmta sæti.

"Nei, það er svo sem ekkert í þessari spá sem kemur mér á óvart. Það búast margir við sex liða baráttu karlamegin. Ég held það verði erfitt að spá fyrir um hvernig þetta verður," sagði Einar en karlaliðið hjá honum hefur styrkst nokkuð milli ára. Það kom því mörgum á óvart að Fram skildi ekki vera spáð ofar.

"Er það ekki bara af því Fram er með slakan þjálfara," sagði Einar léttur.

"Ég get ekkert lesið í hvað menn eru að hugsa í þessu. Ég er mjög ánægður með okkar mannskap en liðið er mikið breytt. Við erum enn að þróa okkar leik sem að verður vonandi orðinn góður þegar fram líða stundir," sagði Einars en hver eru hans markmið fyrir veturinn?

"Þau eru ólík. Kvennamegin erum við líka með breytt lið enda misst leikmenn og fengið aðra í staðinn. Þar erum við að þróa liðið. Við horfum á framfarirnar í vetur. Markmiðið er að halda öðru sætinu sem okkur er spáð og svo reyna að veita Val einhverja keppni. Valur er með langbesta liðið eins og staðan er í dag.

"Karlamegin er markmiðið að komast í úrslitakeppnina og þá byrjar nýtt mót."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×