Leiknir vann 3-0 sigur á Fjölni í 1. deild karla í fótbolta í kvöld og eiga Efri-Breiðhyltingar því ennþá möguleika á að bjarga sér frá falli. Sömu sögu er ekki hægt að segja af HK-liðinu sem tapaði 0-2 fyrir Haukum og er fallið niður í 2. deild. ÍR-ingar nánast tryggðu sér endanlega sæti í deildinni á næsta sumri með 3-1 sigri á Þrótti.
Björgvin Stefánsson og Hilmar Trausti Arnarsson tryggðu Haukum 2-0 sigur á HK í Kópavoginum en með því felldu þeir HK-liðið niður í 2. deild. Haukar ætla ekki að gefa neitt eftir í baráttunni við Selfoss um sæti í Pepsi-deildinni. Haukar eru nú þremur stigum á eftir Selfyssingum en Selfossliðið á einn leik inni á Hauka.
Ólafur Hrannar Kristjánsson skoraði öll mörk Leiknis í 3-0 sigri á Fjölni í Breiðholtinu en Leiknisliðið er nú þremur stigum á eftir Gróttu sem situr í síðasta örugga sætinu.
ÍR-ingar nánast gulltryggðu sætið sitt með 3-1 útisigri á Þrótti í Laugardalnum. Sveinbjörn Jónasson kom Þrótti yfir en tvö mörk frá Árna Frey Guðnasyni og eitt frá Jón Gísla Ström sáu til þess að ÍR-ingar eru í ágætum málum í fallbaráttunni þegar tvær umferðir eru eftir.
Upplýsingar um markaskorara er að hluta til fengnar af vefsíðunni fótbolti.net
Úrslit og markaskorarar í 1. deild karla í kvöld:
HK - Haukar 0-2
0-1 Björgvin Stefánsson (11.), 0-2 Hilmar Trausti Arnarsson (82.)
Þróttur R. - ÍR 1-3
1-0 Sveinbjörn Jónasson (34.), 1-1 Árni Freyr Guðnason (45.), 1-2 Jón Gísli Ström (55.), 1-3 Árni Freyr Guðnason (65.)
Leiknir R. - Fjölnir 3-0
1-0 Ólafur Hrannar Kristjánsson (22.), 2-0 Ólafur Hrannar Kristjánsson (35.), 3-0 Ólafur Hrannar Kristjánsson (90.+3)
Íslenski boltinn