Íslenski boltinn

Keimlíkir - annar Þórsari en hinn KR-ingur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Félagarnir Arnar Logi Viðarsson (t.v.) og Arnar Logi Tómasson (t.h.) í blíðunni á Akranesi.
Félagarnir Arnar Logi Viðarsson (t.v.) og Arnar Logi Tómasson (t.h.) í blíðunni á Akranesi. Mynd/Þórdís Þórhallsdóttir
Nafnarnir Arnar Logi Tómasson, KR-ingur, og Arnar Logi Viðarsson, Þórsari, hittust á Norðurálsmótinu á Akranesi fyrr í sumar. Þeir eru nauðalíkir í útliti, fæddir sama árið og í sama mánuðinum. Þeir eru áhugasamir um fótbolta þótt þeir styðji sitthvort liðið.

„Þetta er svo kostulegt," segir Rannveig Hrafnkelsdóttir móðir Arnars Loga, Þórsara. Hún var á Akranesi 19. júní þegar Norðurálsmótið í knattspyrnu fór fram.

„Er sonur minn kominn í KR-treyju? Er þetta strákurinn minn? Nei, ég var ekki alveg sátt við að hann væri kominn í KR-treyju, segir Rannveig og hlær þegar hún rifjar upp sólskinsdaginn á Akranesi.

Nafnarnir eru báðir fæddir í október 2003 og afar líkir í útliti eins og sést á myndinni. Myndin var tekin af því tilefni þegar mæðurnar hittust og hlógu að tilviljuninni.

„Ég gekk að móðurinni (Þórdísi, móður Arnars Loga Tómassonar) og spurði hana hvernig stæði á því að hún ætti svona strák eins og ég. Þá hafði hún frétt af þessu líka. Það væri einn Þórsari og ekki nóg með það þá eru þeir báðir fæddir í október," segir Rannveig sem hefur mjög gaman að tilviljuninni.

Þór og KR mætast í bikarúrslitaleiknum á Laugardalsvelli á morgun. Þrátt fyrir að strákarnir séu keimlíkir má fastlega reikna með því að þeir styðji sitthvort liðið á morgun.

„Þeir eru grannir, rauðhærðir, með sömu áhugamál og duglegir í skólanum. Mjög áþekkir með litlar freknur á nefinu," segir Rannveig.

Þórdís Þórhallsdóttir, móðir Arnars Loga KR-ings, er sammála því að um mjög skemmtilega tilviljun sé að ræð.

„Skemmtilegt að þessi lið mætast svo á laugardaginn í bikarúrslitum, sem er eiginlega líka soldið svona „against all odds"," segir Þórdís.

Viðureign KR og Þórs fer fram á Laugardalsvelli á morgun klukkan 16. Leikurinn verður í opinni dagskrá á Stöð2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×