Enski boltinn

Hermann semur við Portsmouth til eins árs

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hermann lætur Carlos Tevez heyra það
Hermann lætur Carlos Tevez heyra það Nordic Photos/AFP
Hermann Hreiðarsson mun skrifa undir nýjan eins árs samning við enska knattspyrnufélagið Portsmouth. Steve Cotterill knattspyrnustjóri Portsmouth er hæstánægður með að fá Hermann aftur til félagsins og segir að Eyjamaðurinn skrifi líklegast undir innan 48 klukkustunda.

Portsmouth News fjallar um málið á heimasíðu sinni í dag. Þar kemur fram að Hermann mæti til æfinga á föstudag en hann fái lengra frí en aðrir leikmenn þar sem hann hafi verið að spila með landsliði Íslands í sumar. Auk Hermanns eru Kanu, Liam Lawrence og Tal Ben-Haim væntanlegir til æfinga í lok vikunnar þannig að leikmannahópur liðsins stækkar ört.

„Við erum mjög ánægðir að Hermann ákvað að koma hingað aftur. Hann er frábær einstaklingur sem sýndi mikinn karakter þegar hann kom tilbaka (úr meiðslum) á síðasta ári. Hann verður með okkur í eitt ár í viðbót og vonandi kemur hann ferskur úr fríinu, tilbúinn að spila fótbolta,“ sagði Cotterill.

„Þetta snýst bara um það að hann komi til Englands og skrifi undir. Ég reikna með því að það gerist á næstu 48 klukkustundum,“ sagði Cotterill.

Hermann hefur verið á mála hjá Portsmouth síðan 2007 en óvíst var hvar hann myndi spila á næstu leiktíð. Hann hafði meðal annars verið orðaður við lið í skosku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×