Innlent

Máli ísbjarnarlistakvenna vísað frá dómi

MYND/Christopher Lund
Kæru Umhverfisstofnunar á hendur tveimur listakonum sem máluðu mynd með matarlit á Langjökul á síðasta ári, hefur verið vísað frá af hálfu embætti Sýslumannsins í Borgarnesi.

Frá þessu er greint á fréttavefnum Skessuhorni.

Listakonurnar voru kærðar til lögreglu fyrir meint brot gegn 42. grein náttúruverndarlaga þar sem segir: „Áletranir á náttúrumyndanir. Hvers konar áletranir á náttúrumyndanir eru óheimilar og varða refsingu..."

Samkvæmt Skessuhorni var það mat embættis Sýslumannsins í Borgarnesi að ofangreint ákvæði væri alltof óskýrt til að það væri nothæft sem refsiheimild, þar sem kröfur nútímarefsiréttar til skýrleika refsiheimilda gerðu strangar kröfur til þess að ákvæði væru skýr og skiljanleg.

Vísir ræddi við Bjargeyju Ólafsdóttur, aðra listakonuna, eftir listagjörninginn en hún teiknaði fjögur þúsund fermetra stóran ísbjörn á Langjökul með matarlit.

Verkið var hluti af alþjóðlega verkefninu 350 Earth, þar sem listamenn á sautján stöðum víðs vegar um heim bjuggu til gríðarstór listaverk sem teknar voru loftmyndir af. Tilefnið var loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna.

Á Skessuhorni segir að það hafi verið til styrkingar ákvörðun sýslumannsembættisins að vísa málinu frá að starfsmaður Umhverfisráðuneytisins hafði sett færslu á Facebook þar sem listaverkinu var hrósað. Enginn vildi þó kannast við að hafa hrósað verkinu þó ljóst væri að starfsmaður með lykilorð ráðuneytisins að Facebook hefði lofað listaverkið.

Sjá fréttina á vef Skessuhorns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×