Íslenski boltinn

Geir: Færeyingar ekki betri en við í fótbolta

Geir Þorsteinsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands, segir það dapurt hversu neðarlega íslenska landsliðsins er fallið á styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA. Ísland hefur aldrei verið neðar á listanum en liðið situr nú í 122. sæti hans.

Sem dæmi má nefna að Færeyjar (114. sæti) og Liechtenstein (120. sæti) eru nú ofar á listanum og þá er stutt í Kasakstan (126. sæti) og Lúxemborg (128. sæti).

„Ég er ekki þeirra skoðunar að Færeyingar séu betri en við í knattspyrnu,“ sagði Geir við Hans Steinar Bjarnason í kvöldfréttum Stöðvar 2 en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan. „En það er ánægjulegt fyrir þá en að sama skapi dapurt fyrir okkur hvað við höfum fallið neðarlega á listann á undanförnum árum.“

„En ég er sannfærður um að við séum með betra lið en margar af þeim þjóðum sem eru fyrir ofan okkuar á þessum lista. Okkar markmið eru fyrst og fremst að ná árnagir í forkeppnum HM og EM og hefur vantað upp á þann árangur að undanförnu.“

„Við erum ekki framarlega í knattspyrnuheiminum og höfum ekki verið það. Ég horfi hins vegar björtum augum til framtíðar,“ sagði Geir. „Við vonum að þessi kynslóð sem nú er að taka við muni skila okkur betri árangri.“

Um þjálfaramál landsliðsins segir Geir að þau mál séu í stöðugri skoðun. „Ólafur er með samning út þessa keppni og nú tekur við umbreyting á landsliðinu og kynslóðaskipti. Við skulum sjá hvað það skilar okkur.“

Hann segir ekki útilokað að ráða erlendan þjálfara í starfið. „Við leitum alltaf að góðum þjálfurum. Við skulum sjá til hvað gerist en það hefur engin ákvörðun verið tekin í þessum efnum. Við erum með þjálfara í starfi nú og hann nýtur okkar fyllsta trausts til að klára þessa keppni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×