Handbolti

Framarar harma ummæli Reynis

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Vilhelm
Stjórn handknattleiksdeildar Fram hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem ummæli fráfarandi þjálfara, Reynis Þórs Reynissonar, eru hörmuð. Þeim var þó ekki svarað með beinum hætti.

Reynir Þór komst að samkomulagi um að hætta þjálfun meistaraflokks karla hjá Fram og gagnrýndi svo í kjölfarið leikmenn fyrir lélegt hugarfar og metnaðarleysi.

Viðtölin við Reyni má lesa neðst í greininni en yfirlýsingin er svohljóðandi:

„Yfirlýsing í framhaldi af fjölmiðla umfjöllun um brotthvarf Reynis Þórs.

Stjórn handknattleiksdeildar Fram harmar harkalega gagnrýni Reynis Þórs á leikmenn meistaraflokks Fram.

Hugarfar keppnisliða er samspil margra þátta og vinnu sem þjálfari fer fyrir hverju sinni og ber ábyrgð á.  Sú vinna var með besta móti á löngum köflum á yfirstöðnu Íslandsmóti og bauð Framliðið á löngum köflum í vetur upp á spilamennsku í algerum sérflokki.  Þegar að á móti blés brugðust Framarar sjálfum sér og náðu ekki að rétta úr kútnum og er stjórn og þjálfari síður en svo undanskilin gagnrýni.

Fram stefnir ávallt á sigur í öllum keppnum.  Leikmannahópur karlaliðsins er þannig skipaður að krafa um titil var eðlileg.  Fram lenti í 3. sæti deildinni og voru það vonbrigði.

Að lokum vill stjórn handknattleiksdeildar óska Reyni Þór velfarnaðar á nýjum vetfangi.

Ólafur I. Arnarsson

Formaður Hkd Fram“


Tengdar fréttir

Ætla ekki að munnhöggvast við Reyni

Reynir Þór Reynisson, sem hætti sem þjálfari Fram í gær, segir að taka þurfi til í leikmannamálum félagsins og bar leikmennina þungum sökunum í viðtali við Fréttablaðið.

Leikmenn með slæmt hugarfar

Reynir Þór Reynisson, sem þjálfaði meistaraflokk karla hjá Fram í vetur, er hættur hjá félaginu eftir að hafa komist að samkomulagi þess efnis við stjórn handknattleiksdeildar Fram. "Það má segja að leið mín og leikmanna hafi ekki legið saman,“ segir Reynir í samtali við Fréttablaðið.

Reynir Þór hættur hjá Fram

Handknattleiksdeild Fram hefur komist að samkomulagi við Reyni Þór Reynisson, þjálfara meistaraflokks karla, að hann láti af störfum hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×