Handbolti

Ársþing HSÍ: Fleiri leikir í úrslitakeppninni næsta vetur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Knútur Hauksson var endurkjörinn sem formaður HSÍ.
Knútur Hauksson var endurkjörinn sem formaður HSÍ.
Ársþing HSÍ var haldið í dag og bar helst til tíðinda að lítilsháttar breytingar voru gerðar á úrslitakeppni deildanna.

Til þess að komast í úrslit hefur þurft að vinna tvo leiki hingað til en á næsta ári þarf að vinna þrjá leiki í undanúrslitum til þess að komast í úrslit.

Einnig verður tekinn upp sex liða úrslitakeppni miðað við níu og tíu liða deild. Þá spila liðin í þriðja og fjórða sæti við liðin í fimmta og sjötta sæti um réttinn til þess að komast í undanúrslit. Tvö efstu liðin fara sjálfkrafa í undanúrslitin.

Úrslitakeppni N1-deildar kvenna verður því með breyttu sniði. Aðeins átta lið eru í N1-deild karla og því verður áfram fjögurra liða úrslitakeppni þar.

HSÍ skilaði hagnaði á síðasta rekstrarári upp á rúmar 2 milljónir króna. Veltan var rúmlega 173 milljónir. Eigið fé sambandsins er tæpar 22 milljónir króna.

Knútur Hauksson var endurkjörinn formaður en enginn bauð sig fram á móti honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×