Handbolti

Umfjöllun: Von Valsmanna afar veik

Henry Birgir Gunnarsson í Kaplakrika skrifar
Ólafur Guðmundsson átti ágætan leik í liði FH.
Ólafur Guðmundsson átti ágætan leik í liði FH.
Draumur Valsmanna um að komast í úrslitakeppni N1-deildar karla svo gott sem dó í kvöld er þeir urðu að sætta sig við tap, 30-25, gegn FH í Krikanum í kvöld. FH styrkti um leið stöðu sína í öðru sæti deildarinnar.

Fyrri hálfleikur var nokkuð skrautlegur. Fyrir það fyrsta var dómaraparið - Jónas Elíasson og Kári Garðarsson - út á þekju og flautuðu meira en á körfuknattleiksleiknum sem ofanritaður sá í gær. Þetta var tóm steypa en lagaðist þó.

Jafnt var á með liðunum þar til tveir Valsarar fuku af velli með skömmu millibili. FH gekk á lagið og náði fjögurra marka forskoti, 9-5.

Valsmenn komu til baka, jöfnuðu 14-14 en Ólafur Guðmundsson skoraði í blálokin og sá til þess að FH leiddi með einu marki í hálfleik, 15-14.

FH-ingar voru áfram skrefi á undan í síðari hálfleik og virtust ætla að ná hreðjataki á leiknum er Pálmar Pétursson skellti í lás. Fram að því var markvarslan engin í leiknum.

Sóknarleikurinn brást aftur á móti FH-ingum, Valur kom til baka og jafnaði leikinn, 21-21, og 15 mínútur eftir.

Hlynur Morthens fór að svara kolleganum hinum megin og datt í loks í gírinn. FH ávallt einu til tveimur mörkum á undan og lokakaflinn æsispennandi.

Það var engu að síður Pálmar sem átti síðasta orðið með fínum markvörslum í lokin. Ólafur Gústafsson sá um markaskorunina og Valsmenn áttu einfaldlega engin svör.

FH-Valur 30-25 (15-14)

Mörk FH (skot): Ólafur Gústafsson 7 (11), Ásbjörn Friðriksson 6/1 (11/1), Ari Magnús Þorgeirsson 5 (7), Ólafur Guðmundsson 5 (11), Sigurgeir Árni Ægisson 2 (2), Atli Rúnar Steinþórsson 2 (2), Baldvin Þorsteinsson 2 (2), Örn Ingi Bjarkason 1 (2).

Varin skot. Pálmar Pétursson 14 (31)48%, Daníel Andrésson 2 (10) 20%.

Hraðaupphlaup: 6 (Baldvin 2, Sigurgeir 2, Ari, Ólafur Gúst.).

Fiskuð víti: 1 (Ari).

Utan vallar: 4 mín

Mörk Vals (skot): Anton Rúnarsson 5 (9), Ernir Hrafn Arnarson 4 (6), Orri Freyr Gíslason 4 (7), Valdimar Þórsson 4 (13), Finnur Ingi Stefánsson 3 (5), Heiðar Aðalsteinsson 2 (4), Sturla Ásgeirsson 2 (5), Fannar Þorbjörnsson 1 (3).

Varin skot: Hlynur Morthens 13 (43) 30%,

Hraðaupphlaup: 3 (Sturla, Finnur, Anton).

Fiskuð víti. 0

Utan vallar: 4 mín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×