Skoðun

Icesave-kynningarnefndin

Gunnar Bragi Sveinsson skrifar
Því ber að fagna að skilanefnd gamla Landsbankans telur nú að meira fáist fyrir eignasafn bankans sem verður þá til þess að lækka eitthvað þær greiðslur sem ríkisstjórnir Bretlands, Hollands og Íslands vilja að íslenska þjóðin taki á sig fyrir fjárglæframennina. Ég fagna því að börnin mín þurfi að greiða minna af skuldum annarra.

Hins vegar verðum við að muna að mat þetta byggir á mati skilanefndarinnar eða þeirra sem vinna fyrir hana en ekki sjálfstæðu mati óháðra aðila. Ég hef því ásamt nokkrum öðrum þingmönnum lagt fram þingsályktun um að sjálfstætt mat verði lagt á eignasafnið áður en Íslendingar ganga til kosninga um Icesave III. Reikna ég með að ályktunin gangi fljótt og vel í gegnum þingið enda mikilvægt fyrir alla að trúverðugleiki ríki um matið. Vonandi er eignasafnið enn betra en skilanefndin gerir ráð fyrir.

Fyrir því má færa rök, að ef eignasafnið batnar og batnar líkt og kynnt var nýlega þá hlýtur að vera betra að bíða og sjá hver þróunin verður í stað þess að efna til skuldbindinga sem enginn hefur fært rök fyrir að okkur beri að axla. En getur verið að verðmæti eignasafnsins sveiflist til? Fyrir Icesave II atkvæðagreiðsluna var eignasafn Landsbankans metið á 1172 milljarða. Nú er talað um að það sé mjög ánægjulegt að það hafi hækkað upp í 1175 milljarða. Hvers vegna? Jú, vegna þess að í millitíðinni LÆKKAÐI það niður í 1132 milljarða! Ekki minntist kynningarnefndin á þetta í gær.

Þá komum við að þeirri undarlegu sýningu sem haldin var í fjármálaráðuneytinu nýlega er íslenska samninganefndin kynnti nýtt mat skilanefndarinnar! Hvers vegna í ósköpunum var samninganefndin að kynna matið? Hvar var skilanefndin? Því miður þá sýnist mér að nú sé samninganefndin ekki lengur samninganefnd heldur kynningarnefnd þríflokksins (Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og VG). Það er ljóst að umboð það sem ég taldi mig veita samninganefndinni náði ekki til kynningarstarfs.

Hver greiðir kynningarkostnaðinn?

 




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×