Íslenski boltinn

KR og Valur spila til úrslita í Reykjavíkurmótinu í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá leik Vals og KR síðasta sumar.
Frá leik Vals og KR síðasta sumar.
KR og Valur mætast í úrslitaleik Reykjavíkurmótsins í fótbolta í Egilhöllinni klukkan 19.15 í kvöld en þar reyna Valsmenn að koma í veg fyrir að KR-ingar verði Reykjavíkurmeistarar þriðja árið í röð.

KR-ingar unnu Reykjavíkurmeistaratitilinn í 37. sinn fyrir ári síðan en þeir hafa unnið Fylki (3-1 2009) og Víking (3-2 2010) í úrslitaleiknum undanfarin tvö ár.

Valsmenn hafa unnið Reykjavíkurmótið 19 sinnum en síðast urðu þeir Reykjavikurmeistar árið 2005. Valur tryggði sér þá titilinn með því að vinna KR í vítaspyrnukeppni í undanúrslitunum en FH-ingar komust í úrslitaleikinn sem gestalið.

Bæði lið þurftu vítaspyrnukeppni til þess að komast í úrslitaleikinn, KR sló út Fram og Valur sló úr Fylki.

Á heimasíðu KR-inga hefur hin töluglöggi Ólafur Brynjar Halldórsson tekið það saman að þetta sé aðeins í annað skiptið, frá því núverandi fyrirkomulag var tekið upp (riðlaskipting og úrslitaleikur), sem KR og Valur spila til úrslita á Reykjavíkurmótinu. KR vann 1-0 sigur á Val í úrslitaleiknum 1991.

Félögin hafa leikið 91 leik á Reykjavíkurmótinu. KR hefur sigrað í 38 leikjum, Valur í 32 en 21 lauk með jafntefli. Markatalan er 146-133 KR í hag. KR vann 5-1 þegar liðin mættust fyrist, árið 1915, en þau skildu jöfn, 1-1, í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×