Handbolti

Sturla: Gaman að spila á dúknum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Mynd/Valli
Mynd/Valli
Breiðhyltingurinn Sturla Ásgeirsson mun leið Valsmenn til leiks í úrslitum Eimskipsbikarsins gegn Akureyri í dag. Sturla er á sínu fyrsta ári með Valsmönnum og strax kominn í Höllina en þangað hefur hann ekki komist áður.

"Ég hlakka mikið til enda ný reynsla. Þetta verður stór og skemmtilegur dagur. Það verður gaman að spila á dúknum fyrir framan fullt af áhorfendum. Vonandi koma sem flestir Valsmenn í Höllina," sagði Sturla en það er oft talað um að stór hluti Valsmanna láti ekki sjá sig á vellinum fyrr en bikar er í boði.

Hafa gárungarnir oftar en ekki talað um Kampavínsklúbb Valsmanna í því samhengi.

"Það er fullt af Valsmönnum þarna úti sem láta sig venjulega ekki vanta á svona stórviðburði. Ég vona að það verði áfram þannig."

Leið Valsmanna í úrslitin var grýtt enda kærðu Framararundanúrslitaleikinn en drógu síðan í land með málið. Hefur það eitthvað truflað Valsmenn?

"Nei, í raun og veru ekki. Við fengum strax að vita að við værum með skothelt mál og við þyrftum ekki að hafa áhyggjur. Við höfum því ekkert verið að velta okkur upp úr þessu," sagði Sturla en Valsmönnum hefur gengið vel í síðustu leikjum og ekki hægt að sjá að kæran hafi truflað þá á sama tíma og allt hefur farið niður á við hjá Frömurum eftir kæruna.

"Við erum fáliðaðir í vörninni en verðum að nýta það sem við höfum. Það hefur oft gengið vel í vetur og ég hef ekki trú á öðru en að það gangi aftur vel núna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×