Handbolti

Atli: Erum ekki búnir að vinna neitt

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Mynd/Valli
Mynd/Valli
Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, náði aldrei að gera KA- menn að bikarmeisturum á sínum tíma en hann fær í dag tækifæri til þess að gera Akureyri að bikarmeisturum fyrstur allra.

"Við lentum í þremur hörkuleikjum gegn FH í síðustu viku og þeir tóku sinn toll. Við höfum síðan reynt að undirbúa okkur af kostgæfni enda frábært fyrir þetta félag að vera komið í úrslit með aðeins fimm ára sögu," sagði Atli en þrir leikmanna hans hafa tekið þátt í bikarúrslitaleik sem og hann sjálfur.

"Maður reynir að miðla af reynslunni og það munar um að Heimir Örn, Guðlaugur Arnars og Bjarni Fritz hafa allir spilað úrslitaleiki. Svo mega menn ekki gleyma því að njóta dagsins og stundarinnar. Það er ekkert sjálfgefið að komast í svona leik."

Leikurinn í dag er væntanlega síðasti möguleiki Vals á titli í vetur á meðan Akureyringar eru klárlega á leið í úrslitakeppni deildarinnar. "Þeir munu klárlega berja vel frá sér. Þó svo það hafi gengið vel hjá okkur þá erum við ekki enn búnir að vinna neitt. Þess vegna munum við selja okkur dýrt til þess að ná í þennan titil."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×