Handbolti

Júlíus hættur með Valsliðið - Heimir og Óskar taka við liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Júlíus Jónasson.
Júlíus Jónasson.

Júlíus Jónasson er hættur sem þjálfari karlaliðs Vals en í tilkynningu á heimasíðu félagsins segir að Handknattleikdsdeild Vals og Júlíus hafa komist að samkomulagi um að Júlíus láti af störfum.

Samið hefur verið við Heimir Ríkharðsson aðstoðarþjálfara og Óskar Bjarna Óskarsson yfirþjálfara handknattleiksdeildar Vals að taka við liðinu tímabundið. Þeir Heimir og Óskar Bjarni áttu að stýra Valsliðinu í næstu leikjum á meðan Júlíus væri upptekin með kvennalandsliðið á EM.

Valsmenn hafa aðeins unnið einn af fyrstu átta leikjum sínum í N1 deild karla og eru sem stendur í neðsta sæti deildarinnar. Næsti leikur Valsliðsins er á móti Selfossi í Vodafone-höllinni á morgun.

Óskar Bjarni þjálfaði Valsliðið á undan Júlíusi og Heimir var þá aðstoðarmaður hans. Óskar Bjarni hætti með liðið síðasta vor og gerðist yfirþjálfari hjá Val.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×