Viðskipti innlent

Hagkaup framvegis í eintölu

Liðin tíð Ekki er von á fleiri Hagkaupabókum. Hér eftir verða þær allar Hagkaupsbækur í eintölu eins og allt annað sem tengist nafni fyrirtækisins.
Liðin tíð Ekki er von á fleiri Hagkaupabókum. Hér eftir verða þær allar Hagkaupsbækur í eintölu eins og allt annað sem tengist nafni fyrirtækisins.

Eftir talsvert hringl í gegnum fimmtíu ára sögu Hagkaups var skarið tekið af í fyrra um rétta notkun á nafni fyrirtækisins. „Við erum í eintölu," segir Gunnar Ingi Sigurðsson framkvæmdastjóri.

Eftir að ýmsar matreiðslubækur hafa ýmist verið nefndar Kökubók Hagkaups eða Hagkaupa eftir stefnu stjórnenda hverju sinni leitaði fyrirtækið til Íslenskrar málnefndar eftir leiðbeiningum.

„Í fyrra talaði ég við mikinn speking þar, mér fróðari, sem sagði að í raun væri hvort tveggja alveg rétt. En hann útskýrði þó að í raun væru þetta ein kaup," segir Gunnar um aðdraganda þess að ákveðið var fyrir um ári að nafnið yrði framvegis í eintölu. Vitnaði ráðgjafi hjá málnefndinni meðal annars til orðabókar Johans Fritzner frá nítjándu öld um forníslensku og fornnorsku.

Nú hefur allt kynningarefni og annað sem ber nafn Hagkaups verið samræmt.

„Okkur fannst dálítið kjánalegt að segja Hagkaupapokum. Það eina sem er kannski ljótt í eintölunni er þágufallið - frá Hagkaupi - en það venst. Og þannig verður það, að minnsta kosti á meðan þeir eru sáttir við okkur hjá málnefndinni," segir framkvæmdastjórinn.- gar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×