Handbolti

Logi: Eins og hann sé með puttann í rafmagnsdósinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Andrés Guðmundsson lætur vaða á markið í gær.
Ólafur Andrés Guðmundsson lætur vaða á markið í gær. Mynd/Daníel
FH-ingurinn Ólafur Andrés Guðmundsson hefur farið á kostum í fyrstu tveimur leikjum FH í N1 deild karla og hefur greinilega notið góðs af því að spila við hlið Loga Geirssonar sem hefur tekið að sér leikstjórnendahlutverkið í FH-liðinu í vetur.

Ólafur hefur skorað 19 mörk í fyrstu tveimur leikjum FH, ekkert þeirra hefur komið úr vítakasti og flest þeirra hafa komið með þrumuskotum fyrir utan. Ólafur hefur nýtt 61 prósent skota sinna í þessum tveimur sigurleikjum FH.

Ólafur skoraði 10 mörk úr 15 skotum í fyrsta leiknum þar sem FH vann 34-25 sigur á Aftureldingu og hann skoraði 9 mörk úr 16 skotum í níu marka sigri FH-liðsins á Haukum í gær.

„Óla finnst ekkert leiðinlegt að skjóta og það er eins og hann sé með puttann í rafmagnsdósinni. Það er líka gott því hann er góð skytta," sagði Logi Geirsson í léttum tón um Ólaf eftir sigurinn á Haukum í gær.

„Ólafur er í sérklassa af skyttunum á Íslandi í dag. Það er mjög gott að ég get brotið svolítið upp fyrir hann sem og fyrir fleiri í liðinu," sagði Logi en Ólafur hefur skotið 24 fleiri skotum á markið en Logi í fyrstu tveimur leikjum FH.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×