Innlent

RAX á Suðurskautið með færustu vísindamönnum Frakka

Ragnar Axelsson ljósmyndari er á leiðinni á Suðurskautslandið með hópi franskra vísindamanna og Michel Rocard, fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands.
Ragnar Axelsson ljósmyndari er á leiðinni á Suðurskautslandið með hópi franskra vísindamanna og Michel Rocard, fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands.
„Þetta boð kom í gegnum sýninguna mína um Grænland og ég er bara mjög spenntur," segir ljósmyndarinnar Ragnar Axelsson, RAX. Hann er á leiðinni á Suðurskautslandið með mörgum af færustu vísindamönnum Frakklands og Michel Rocard, fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands. Rocard var einmitt staddur á Íslandi fyrir skömmu og er mikill áhugamaður um heimskautasvæðin en því er spáð að mikilvægar siglingaleiðir fari að opnast með hlýnun jarðar. Til stóð að sjálfur Albert Monakó-prins yrði einnig með í för en af því verður ekki.

Ragnar segist reyndar ekki hafa hugmynd um hvert nákvæmlega ferðinni sé heitið, hann viti bara að þeir séu að fara á þriðjudaginn og verði þar sem mikið af mörgæsum er. „Þetta verður mjög áhugavert, núna er náttúrlega farið að vora þarna og því hlýrra en venjulega. Mér hefur ekki gefist tími til að skoða ferðatilhögunina nákvæmlega en mér skilst að við heimsækjum verulega flotta staði."

Myndir Ragnars hafa vakið mikla athygli og nýútkomin bók hans, Veiðimenn norðursins, hefur fengið frábæra dóma en hún sýnir einstakt líf veiðimanna á Grænlandi. Ragnar segir hins vegar, í meira gríni en alvöru, að kannski hefði verið sniðugra hjá sér að velja eitthvað örlítið hlýrra viðfangsefni. „Mér hefði þá verið boðið á hlýrri staði."- fgg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×