Handbolti

Gunnar: Höfum ekki verið rassskelltir fyrr en núna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Daníel
Mynd/Daníel

Gunnar Andrésson, þjálfari Aftureldingar var allt annað en sáttur með leik sinna manna í átta marka tap fyrir FH á heimavelli í kvöld. Afturelding komst lítið áleiðis gegn sterkri vörn Hafnarfjarðarliðsins í leiknum.

"Þetta var klárlega okkar lélegasti leikur í vetur og við áttum ekkert skilið úr þessum leik. Haffi stóð sig mjög vel í markinu og varnarlega séð vorum við allt í lagi en sóknarlega voru við arfaslakir. Við náðum ekkert að breyta því þar sem við vorum gjörsamlega á hælunum allan leikinn. Við náðum engan veginn að koma okkur út í því," sagði Gunnar.

"Það er mjög svekkjandi að vera ekki búnir að vinna leik hér á heimavelli og það er í raun ekkert við það að bæta," sagði Gunnar.

"Við verðum að fara yfir þennan leik og fara í naflaskoðun hvað er að plaga okkur. Við höfðum ekki verið rassskelltir fyrr en núna. Við vorum teknir og jarðaðir hér á heimavelli. Mér fannst ótrúlegt að við skyldum vera inn í leiknum eftir fyrri hálfleikinn því við fórum inn í hálfleik 11-7 undir þrátt fyrir að hafa verið arfa lélegir," sagði Gunnar sem þarf að reyna að rífa liðið sitt upp.

"Við þurfum að spýta í lófana og reyna að koma tvíelfdir til leiks í næsta leik," sagði Gunnar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×