Innlent

Íbúðalánin líklega ólögmæt

Gylfi Magnússon
Gylfi Magnússon

„Það er með miklum eindæmum að þessi bolti fór af stað og að öllum þeim lögfræðingum sem útbjuggu lánasamningana hafi ekki tekist að gera þá þannig úr garði að þeir væru löglegir," segir Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, um niðurstöðu Hæstaréttar. Líkt og fram kemur hjá Hæstarétti hefur gengistrygging lána í krónum verið óheimil í níu ár.

Hann segir ágætt að fá niðurstöðu í málið, dómurinn sé skýr og liggi nú fyrir hvernig eigi að fara með gengistryggð lán. „Næsta skref er að vinna úr þessu," segir hann og bætir við að boltinn sé nú hjá lánveitendum sem þurfi að gera upp lánin miðað við breyttar forsendur og senda út nýja greiðsluseðla. Reikna megi með endurgreiðslu í einhverjum tilvikum. Ekki liggur fyrir hvort breyta þurfi lögum vegna niðurstöðu Hæstaréttar og hefur ríkisstjórnin ekki tekið ákvörðun um slíkt.

Gylfi segir að búið sé að kortleggja hvaða áhrif niðurstaða Hæstaréttar muni hafa á bankana og fjármögnunarfyrirtækin. „Fyrir stóru bankana er þetta ákveðið áfall en langt innan þolmarka þeirra. Meiri óvissa sé um það hvernig bílalánafyrirtækjum mun reiða af. Áfallið er mest fyrir þau," segir hann.

Niðurstaða Hæstaréttar byggir á orðalagi lánasamninga fyrirtækjanna. Gylfi segir ljóst að hún muni hafa áhrif á önnur gengistryggð lán með svipuðu orðalagi, þar á meðal íbúðalán. - jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×